Hoppa yfir valmynd
3.10.2014
Alþjóðleg hönnunarsamkeppni um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar

Alþjóðleg hönnunarsamkeppni um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar

Isavia efnir til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára. Félagið hefur falið Ríkiskaupum að auglýsa forval til lokaðrar hönnunarsamkeppni þar sem fimm aðilum sem uppfylla kröfur um hæfi og reynslu verður boðin þátttaka. Skulu þátttakendur hafa unnið a.m.k. fimm sambærilegar áætlanir í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins og/eða N-Ameríku og hafa á að skipa sérfræðingum með mikla reynslu í skipulagsmálum flugvalla. Frestur til að skila inn þátttökuumsókn í forvalinu rennur út 16. október og er áætlað að fullmótuð áætlun liggi fyrir í júní 2015.
 
Ferðamannastraumur um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mjög undanfarin ár og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Hugað verður að bættri þjónustu við flugfélög og farþega í samráði við flutningafyrirtæki, ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila. Hver milljón farþega um alþjóðaflugvöll skapar að jafnaði um 1000 störf sem gefur til kynna efnahagsleg áhrif Keflavíkurflugvallar á nærsamfélagið. Verður sérstaklega fjallað um uppbyggingu þess og leitað eftir þátttöku nágranna flugvallarins við mótun áætlunarinnar.
 
Uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar verður framtíðarsýn á flugvallarstarfsemina sem nýtist öllum hlutaðeigandi við ákvarðanatöku um fjárfestingar og skipulagsmál með hagkvæmni og vistvæna þróun að leiðarljósi.