Hoppa yfir valmynd
16.5.2024
Árangursrík flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli

Árangursrík flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli

Flugslysaæfing var haldin á Hornafjarðarflugvelli laugardaginn 11. maí síðastliðinn. Um 140 manns tóku þátt í æfingunni. Þar voru æfð viðbrögð við flugslysi við annan brautarenda flugvallarins. Líkt var eftir því að flugvél með 20 manns um borð hefði reynt lendingu á vellinum en runnið eftir brautinni vegna bilunar í hjólabúnað og á litla vél með þremur aðilum.

Æfingin byggði á viðbragðsáætlun fyrir Hornafjarðarflugvöll. Þátttakendur flugslysaæfingunni í Hornafirði voru viðbragðsaðilar sem skráðir eru í áætlunina. Aðgerðarstjórn var á Selfossi og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna þessa.

Starfsfólk Isavia Innanlandsflugvalla æfði viðbúnað sinn á Hornafjarðarflugvelli. Það gerðu einnig slökkvilið, fulltrúar almannavarna, lögreglu, björgunarsveita, Rauða krossins, Neyðarlínu Landhelgisgæslu og heilbrigðisstofnanir.

„Æfingin mjög gekk vel,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingarstjóri. „Það var afskaplega gaman að sjá hvað hópurinn var vel samræmdur í þessu æfingaverkefni. Þyrla Landhelgisgæslu og greiningarsveit frá Landspítala tóku þátt í æfingunni þannig að hægt var að æfa yfirfærslu þolenda milli aðila með aukinni áherslu á heilbrigðisþáttinn og einkenndist samvinnan af mikilli fagmennsku. Eins og alltaf leggjum við hjá Isavia og Almannavörnum áherslu á að æfingar sem þessar gefi öllum viðbragðsaðilum á svæðinu tækifæri til að reyna sig í þeim aðstæðum sem geta skapast þegar alvarleg slys verða, efla samvinnu og slípa til ferla.“

Elva segir að æfingin hafi verið góð tilbreyting fyrir aðila á Suðurlandi, viðbragðshópurinn á svæðinu sé samrýmdur enda hafi því miður orðið krefjandi slys á svæðinu undanfarin ár. Á æfingum er hægt að prófa og vinna með atriði sem aðilum finnst að betur megi fara og bætt verklag skili sér síðan í raunatburði.

Æfingin á Hornafjarðarflugvelli er sú fyrsta sem haldin er í ár en síðar á þessu ári verða æfingar á flugvöllunum á Gjögri, í Grímsey og á Keflavíkurflugvelli.