Hoppa yfir valmynd
28.9.2023
Árshlutauppgjör Isavia 30. júní 2023

Árshlutauppgjör Isavia 30. júní 2023

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á fyrri helmingi ársins 2023 var jákvæð um 1.777 milljónir króna samanborið við 968 milljónir króna fyrir sama tímabil á síðasta ári. Aukningin nemur um 809 milljónum króna. Tekjur samstæðunnar jukust um 4.272 milljónir króna milli tímabila og námu 20.085 milljónum króna. Heildarafkoma tímabilsins var neikvæð um 221 milljón króna samanborið við jákvæða afkomu upp á um 501 milljón króna fyrir sama tímabil í fyrra. Þessa lækkun á heildarafkomu má rekja til breytinga á gengisáhrifum vegna langtímalána í erlendri mynt. Fjárfestingar samstæðunnar námu um 8.197 milljónum króna á fyrstu 6 mánuðum ársins og má rekja langstærsta hlutann, eða um 7.802 milljónum króna til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins fóru um 3,4 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll. 

„Rekstur samstæðu Isavia á fyrstu sex mánuðum ársins var nokkuð í takt við okkar eigin væntingar.“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Við höfum eins og önnur fyrirtæki fundið vel fyrir kostnaðarhækkunum síðustu missera og erum að róa öllum árum að því að mæta þeim.“ 

Langtímaáætlanir félagsins gera ráð fyrir frekari uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. „Á sama tíma og við erum að eiga við kostnaðarhækkanir þá gera okkar áætlanir ráð fyrir áframhaldandi vexti í fjölda farþega sem mun fara um Keflavíkurflugvöll“ segir Sveinbjörn. „Við munum því áfram leggja áherslu á uppbyggingu á flugvellinum ásamt því að styrkja aðra innviði félagsins.“

Hálfsársuppgjör Isvaia samstæðunnar fyrir fyrri hluta árs 2023 má lesa hér í heild sinni

Lykiltölur úr hálfsársuppgjöri samstæðu Isavia 2023 

  • Tekjur: 20.085 milljónir króna
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA): 1.777 milljónir króna
  • Heildarafkoma eftir skatta: -221 milljón króna
  • Handbært fé: 10.020 milljónir króna
  • Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 8.197 milljónir króna
  • Eigið fé í lok tímabils: 41.741 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall: 40,8%