Hoppa yfir valmynd
15.3.2022
Ársuppgjör Isavia fyrir 2021 -  Næsta ár verði metár í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli

Ársuppgjör Isavia fyrir 2021 - Næsta ár verði metár í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á árinu 2021 var neikvæð um 4,7 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 10,1 milljarð króna  árið 2020. Áhrifa kórónuveirunnar gætti enn verulega á rekstur félagsins þrátt fyrir mikinn viðsnúning á fyrri hluta ársins en tekjur jukust um 6,1 milljarða króna eða 41% samanborið við árið á undan. Ef horft er til ársins 2019 nam tekjusamdrátturinn árið 2021 um 46% fyrir samstæðu Isavia en 72% ef eingöngu er horft til reksturs móðurfélagsins sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 58% milli ára og voru þeir 2,2 milljónir árið 2021 samanborið við 1,4 milljónir árið á undan.

Ef horft er til heildarafkomu ársins var hún jákvæð um 321 milljónir króna samanborið við neikvæða afkomu um 13,2 milljarða króna árið 2020. Stóran hluta þeirrar breytingar má rekja til jákvæðra gengisáhrifa vegna langtímalána í erlendum gjaldmiðlum og einskiptis vaxtatekna.

„Þrátt fyrir að áhrifa kórónuveirunnar hafi gætt verulega  í rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hjá okkur á síðasta ári má segja að árið 2021 hafi markað ákveðin tímamót,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Þau flugfélög sem flugu til Keflavíkurflugvallar árið 2019 snéru aftur og með afnámi sóttvarnarráðstafana á landamærum Íslands má segja að síðustu hindruninni sem eftir stóð hafi verið hrundið úr vegi. Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi frá okkar flugfélögum og þrátt fyrir að kórónuveiran hafi enn  áhrif á líf okkar allra þá þarf ekki mikið að gerast til að við förum fram úr þeim  forsendum sem spár gefa til kynna um fjölda farþega á þessu ári. Við sjáum ekki enn hver áhrif stríðsins  í Úkraínu kunna að verða á ferðalög farþega til og frá Íslandi en fylgjumst auðvitað vel með stöðu mála.“

Uppbygging Keflavíkurflugvallar gengur vel og það er útlit fyrir að 2022 verði metár þegar kemur að framkvæmdum á flugvellinum.

„Uppbyggingin mun gera okkur kleift að taka enn betur á móti sívaxandi fjölda farþega á næstu árum og auka samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar. Það mun styðja við fjölgun flugtenginga sem er lykilatriði þegar kemur að lífsgæðum og velsæld á Íslandi,“ segir Sveinbjörn. „Framkvæmdir eru að mestu enn á áætlun en við finnum þó þegar fyrir áhrifum stríðsins í Úkraínu á aðfangakeðjuna í framkvæmdunum.“

Aðalfundur Isavia verður haldinn 24. mars næstkomandi og þá verður ársskýrsla félagsins fyrir árið 2021 gefin út.

Ársreikning Isavia fyrir árið 2021 má lesa hér.

Lykiltölur úr ársuppgjöri Isavia 2021

  • Tekjur: 20.843 milljónir króna
  • Rekstrartap fyrir fjármagnsliði og skatta: - 3.911 milljónir króna
  • Heildarafkoma eftir skatta: 321 milljón króna
  • Handbært fé: 14.683 milljónir króna
  • Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 5.974 milljónir króna
  • Eigið fé í lok tímabils: 36.579 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall: 41,5%