Hoppa yfir valmynd
17.7.2019
Ásgeir lætur af formennsku í NAT SPG eftir rúm 20 ár í starfi

Ásgeir lætur af formennsku í NAT SPG eftir rúm 20 ár í starfi

Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, lét nýverið af störfum sem formaður Stýrihóps Alþjóðaflugmálastjórnar (ICAO) um flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi (NAT SPG).

NAT SPG var stofnaður 1965 og var þá fyrsti svæðisbundni stýrihópur ICAO. Hlutverk hans er að annast eftirlit með gæðum flugleiðsöguþjónustu innan Norður-Atlantshafssvæði ICAO, en það spannar loftrýmið yfir Atlantshafinu frá norðurpól að 45 gráðum norðlægrar breiddar. Einnig stjórnar NAT SPG innleiðingu nýrrar tækni, vinnuaðferða og staðla.

Innan stýrihópsins starfa sérfræðihópar sem fjalla um öryggi flugs, vinnuaðferðir og búnað í flugleiðsögukerfum og loftförum. Aðildarlönd NAT SPG eru Bandaríkin, Kanada, Ísland, Noregur, Danmörk, Stóra-Bretland, Írland, Frakkland og Portúgal. Auk þeirra taka þátt fulltrúar frá IATA (alþjóðasamtökum flugfélaga), IBAC (alþjóðasamtökum flugrekenda einkavéla), IFALPA (alþjóðasamtök flugmanna), IFATCA (alþjóðasamtökum flugumferðastjóra) og INMARSAT (veitanda gervihnattaþjónustu).

Hér má lesa nánar um starfsemi NAT SPG

Ásgeir var kjörinn formaður NAT SPG árið 1997 og gegndi hann starfinu lengst allra formanna hópsins eða í 22 ár. Annar íslenskur fulltrúi tekur við stöðunni af Ásgeiri. Það er Hlín Hólm, deildarstjóri flugleiðsögudeildar Samgöngustofu, sem var kosin í embættið á fundi ICAO í síðasta mánuði.

Í tilefni af tímamótunum birti Morgunblaðið fyrir skömmu heilsíðu viðtal við Ásgeir þar sem farið var yfir verkefnin í formannstíð hans og mikilvægi starfseminnar fyrir Ísland. Þar sagði Ásgeir að hann hefði lært mikið af formannsstarfinu hjá NAT SPG. „Það eru forréttindi að hafa aðgang að helstu flugþjóðum heims og bestu sérfræðingum á þessu sviði.  Til að halda stöðu okkar er mikilvægt að taka virkan þátt í samstarfi af þessu tagi,“ sagði Ásgeir.

Í viðtalinu segir Ásgeir að þegar skiptar skoðanir hafi verið um mál innan stýrihópsins hafi sá möguleiki verið fyrir hendi að skera úr um deilumál með atkvæðagreiðslu. Hann hafi hins vegar lagt áherslu á að leysa úr málum með samkomulagi og aldrei hafi komið til atkvæðagreiðslu í hans formannstíð.

Viðtalið við Ásgeir mál lesa í heild sinni hér (pdf)

Hlín Hólm (t.v.) hefur tekið við formennsku af Ásgeiri. 

Ásgeir ásamt Dr. Assad Kotaite, forseta þings Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Karsten Theil forstjóra svæðisskrifstofu ICAO í París (fyrir EUR/NAT).