Hoppa yfir valmynd
6.2.2020
Ásgeir Rúnar Harðarson nýr umdæmisstjóri á Egilsstöðum

Ásgeir Rúnar Harðarson nýr umdæmisstjóri á Egilsstöðum

Ásgeir Rúnar Harðarson hefur verið ráðinn umdæmisstjóri Isavia á Egilsstöðum. Hann annast daglegan rekstur Egilsstaðaflugvallar og annarra áætlanaflugvalla og flugbrauta í umdæmi Austurlands, þ.e. umdæmi fjögur. Innan umdæmisins eru áætlunarflugvellirnir á Egilsstöðum, Vopnafirði og Hornafirði auk flugbrautanna á Norðfirði, Djúpavogi og Fagurhólsmýri.

Ásgeir Rúnar starfaði á árunum 2013-2016 sem eftirlitsmaður flugvalla hjá Samgöngustofu. Frá 2016 var hann flugvallahönnuður og verkefnisstjóri hjá Verkís. Hann er menntaður byggingartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið einkaflugmannsnámi.

Ásgeir Rúnar er fæddur í Reykjavík en uppalinn í Neskaupstað. Hann hóf störf sem umdæmisstjóri 1. febrúar síðastliðinn og tók þá við starfinu af Jörundi Hilmari Ragnarssyni. Jörundur hefur starfað hjá Isavia, og áður Flugstoðum, síðustu 15 árin, þar af sem umdæmisstjóri síðustu fimm ár.