Hoppa yfir valmynd
13.3.2014

Yfirlýsing vegna fjölmiðlaumfjöllunar um þjónustu Isavia á Vestmannaeyjaflugvelli

Vegna samdráttar í áætlunarflugi hjá Flugfélaginu Erni ákvað Isavia að manna ekki vaktir á laugardögum á Vestmannaeyjaflugvelli í vetur. Haft var samráð við innanríkisráðherra, bæjarstjórn og Flugfélagið Erni. Að beiðni Ernis hefur stytting þjónustutíma verið frestað um sinn.

Isavia hefur jafnan haft fasta vakt á Vestmannaeyjaflugvelli alla daga vikunnar. Flugfélagið Ernir sem heldur uppi áætlunarferðum til Eyja hafði gefið út að ekki yrði flogið áætlunarflug á laugardögum í vetur. Þess vegna var ákveðið að til hagræðingar yrði ekki mönnuð vakt á flugvellinum á laugardögum á tímabilinu 15. mars til 26. apríl, en flugvöllurinn yrði alltaf opnaður samkvæmt beiðni. Ákvörðunin var kynnt á fundi með innanríkisráðherra 13. janúar sl. og einnig flugfélaginu Erni sem ekki gerðu athugasemd. Framkvæmdastjóri flugvalla- og mannvirkjasviðs Isavia átti fund með fulltrúa bæjarstjórans í Vestmannaeyjum og kynnt honum breytinguna 14. febrúar sl. Frá bæjarstjóra bárust heldur engar athugasemdir.

Breyting á afgreiðslutíma Vestmannaeyjaflugvallar var formlega tilkynnt flugrekendum með NOTAM-skeyti, föstudaginn 7. mars. Flugfélagið Ernir sendi Isavia beiðni síðastliðinn þriðjudag (11. mars) um opnun á laugardögum vegna breyttra aðstæðna og var henni vel tekið. Var styttingu þjónustutíma flugvallarins frestað um sinn og ræðst framhaldið af því hver þörfin fyrir umrædda þjónustu verður það sem eftir lifir vetrar.