Hoppa yfir valmynd
3.7.2023
Bæjarins beztu opna á Keflavíkurflugvelli

Bæjarins beztu opna á Keflavíkurflugvelli

Bæjarins beztu pylsur hafa opnað sinn annan sölustað á Keflavíkurflugvelli og nú í ekta pylsuvagni. Um er að ræða svokallað pop-up rekstrarrými á biðsvæði í suðurbyggingu sem farþegar á leið til Bretlands, Bandaríkjanna og annarra landa utan Schengen fara um.

Isavia auglýsti í vetur eftir aðilum til að reka veitingasölu í pop-up rýmum á biðsvæði í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar. Biðsvæðið er fyrir farþega sem hafa farið í gegnum landamæri og eru á leið til landa utan Schengen-svæðisins. Stór hluti þeirra sem fara um biðsvæðið eru tengifarþegar sem dvelja að meðaltali aðeins um klukkustund í flugstöðinni. Því var lögð rík áhersla á afgreiðsluhraða við val á veitingaaðila fyrir pop-up rýmið. 

„Við viljum að gestir Keflavíkurflugvallar finni fyrir og upplifi Ísland þegar þeir eru þar og það er fátt íslenskara en Bæjarins bezstu pylsur. Hróður Bæjarins beztu hefur borist víða og því gleður það okkur að geta boðið gestum vallarins upp á hinar margrómuðu pylsur þeirra,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildastjóri verslana og veitinga hjá Isavia. „Farþegum á flugvellinum hefur fjölgað verulega á síðustu mánuðum og við sjáum fram á að sumarið í ár verði eitt það stærsta frá upphafi og því góð viðbót að geta boðið upp á þekkta vöru og hraða þjónustu.“ 

Pylsuvagninn góðkunni hóf fyrst rekstur árið 1937 í miðborg Reykjavíkur. Síðan þá hafa Bæjarins beztu boðið höfuðborgarbúum og nærsveitamönnum upp á sínar víðfrægu pylsur en í dag eru staðirnir orðnir 10 talsins; 7 staðir á höfuðborgarsvæðinu og 3 á Suðurnesjum að nýja staðnum meðtöldum. 

Pop-up staður Bæjarins beztu á Keflavíkurflugvelli verður til eins árs en fyrir er staðurinn með útibú í 10-11 í komusal Keflavíkurflugvallar.