Hoppa yfir valmynd
12.1.2018
Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar

Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar

185 ferðamenn komu til Akureyrar með beinu flugi frá Cardiff í Wales í morgun. Í beinu framhaldi fór hópur ferðamanna frá Akureyri í beinu flugi með sömu vél til Edinborgar í Skotlandi. Flugferðirnar eru á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break sem áætlar að fara 13 ferðir til viðbótar í vetur. Flogið verður tvisvar í viku. Chris Hagan, stjórnandi hjá Super Break og skipuleggjandi ferðanna, segir að sala á þeim hafi gengið framar vonum.
 
Fögnuður var á Akureyrarflugvelli við komu fyrstu vélarinnar frá Super Break og við það tækifæri greindi Chris frá því að áætlað væri að 2.500 ferðamenn kæmu frá Bretlandseyjum í ferðirnar og búið væri að selja um 95% sæta. Salan hafi því gengið vonum framar og hefur komið fram að ferðaskrifstofan hafi uppi áform um aukin umsvif á Norðurlandi.
 
Það voru Isavia, Flugklasinn Air 66N, breska sendiráðið á Íslandi og Akureyrarbær sem buðu til móttöku vegna komu flugvélarinnar. Auk Chris Hagan fluttu þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, Eiríkur Björgvin Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, og Margrét Helga Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, ávarp við það tilefni. Fundarstjóri var Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
 
Í ræðu sinni sagði ráðherra að í dag hefði verið reist enn ein varðan í þeirri viðleitni að gera landið allt að áfangastað allt árið. „Enginn varfi er á að þessi viðbót verður lyftistöng fyrir fyrirtæki hér á svæðinu og samfélagið í heild sinni nýtur góðs af því,“ sagði ráðherra ferðamála.
 
Þá fjallaði ráðherra einnig um þau áform sín að taka hluta af fjármunum Flugþróunarsjóðs og ráðstafa til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til að setja aukinn kraft í markaðsstarf sem miði að því að koma á beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða. „Í framhaldinu hefur ráðuneytið nú samið við báða þessa aðila um 20 milljóna króna framlag til hvors aðila um sig. Samningarnir gilda út þetta ár og ég bind vonir við að þeir muni styðja vel við hið öfluga starf sem unnið hefur verið,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason/Markaðsstofa Norðurlands