Hoppa yfir valmynd
2.10.2023
Bestu íslensku stuttmyndir RIFF sýndar á Keflavíkurflugvelli

Bestu íslensku stuttmyndir RIFF sýndar á Keflavíkurflugvelli

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF er haldin hátíðleg í Reykjavík dagana 28. september – 8. október 2023. RIFF teygir anga sína til Keflavíkurflugvallar í ár, þar sem tíu vel valdar íslenskar stuttmyndir frá hátíðinni verða sýndar í brottfarasal flugvallarins.

Í tilefni að kvikmyndahátíðin er haldin í 20. skiptið í ár, verða sýndar á flugvellinum íslenskar stuttmyndir sem eiga það sameiginlegt að hafa verið valdar Besta íslenska stuttmyndin á RIFF undanfarin tíu ár. Þar má nefna stuttmyndina Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson sem er margverðlaunuð stuttmynd, Málarinn eftir Hlyn Pálmason sem fékk einnig tilnefningu til Dönsku kvikmyndaverðlaunanna og Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Gestum flugvallarins stendur til boða að sjá íslenskar stuttmyndir sem hafa sumar hverjar slegið í gegn á alþjóðavísu og sýna því vel þann mikla kraft sem býr í kvikmyndagerð á Íslandi.

Á 2. hæð í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar við landamæraeftirlitið, er búið að stilla upp skemmtilegu rými með skjá fyrir gesti og sætum svo hægt er að setjast niður, njóta og upplifa RIFF á flugvellinum. 

Fyrir þá sem hafa unun af því að spegla sig í nýjum evrópskum kvikmyndum, hitta leikstjóra, taka þátt í umræðum og njóta kvikmynda frá öllum heimshornum, býður RIFF upp á veglega og fjölbreytta alþjóðlega kvikmyndadagskrá. Nú fá gestir Keflavíkurflugvallar tækifæri á að leyfa töfrum kvikmyndalistarinnar að fara með sig á óvæntar slóðir á leið sinni erlendis. 

Gleðilega kvikmyndahátíð í Reykjavík!