Hoppa yfir valmynd
29.1.2015
Betri gögn - vandaðra áhættumat

Betri gögn - vandaðra áhættumat

Lokun stystu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar hefur verið til umræðu frá árinu 1999. Fjórir ráðherrar samgöngumála hafa komið að eða gert samkomulag við Reykjavíkurborg sem miðar að slíkum breytingum á flugvellinum. Síðasta samkomulagið var undirritað í nóvember 2013 og óskaði innanríkisráðherra eftir því að Isavia gerði áhættumat til þess að kanna hvaða ráðstafana grípa þyrfti til vegna lokunarinnar.

Áhættumat í samræmi við verklagsreglur

Gerð áhættumats lýtur eingöngu að mati á flugöryggislegum þáttum og mögulegum mótvægisaðgerðum sem tengjast breytingum á flugvöllum eða flugleiðsöguþjónustu. Við gerð áhættumats vinnur félagið eftir kerfisverklagi (KV-100 21-1) sem samþykkt er af Samgöngustofu í samræmi við reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli. Áhættumat hefur ekkert að gera með þjónustustig flugrekenda eða sjúkraflugs. Mat á þeim þáttum er á annarra ábyrgð, t.d. stjórnvalda og flugrekenda.

Umrætt áhættumat var upphaflega framkvæmt af sérfræðingum Isavia að höfðu samráði við aðra sérfræðinga á viðkomandi sviði sem og fulltrúa hagsmunaaðila. Isavia skilaði í samræmi við verklagsreglur drögum að áhættumati til Samgöngustofu vorið 2014 en þeim var hafnað í júlí sl. þar sem þau voru talin byggja um of á huglægu mati um áhættu sem studdist ekki við tölfræðileg gögn. Ekki er óalgengt að Samgöngustofa geri athugasemdir og kalli eftir frekari gögnum áður en endanlegt áhættumat fær samþykki stofunnar.

EFLA studdist við ítarlegri gögn en áður

Isavia aflaði því næst ítarlegra veðurgagna og fól sérfræðingum verkfræðistofunnar EFLU að yfirfara þau og meta nothæfistíma og svonefndan nothæfisstuðul flugvallarins með tveimur flugbrautum. Umrædd verkfræðistofa vann árið 2000 skýrslu um nothæfisstuðul flugvallarins en nú var stuðst við miklu ítarlegri veðurgögn en áður hafa verið tiltæk. Jafnframt var stuðst við mat á nothæfistíma til þess að greina og leggja mat á áhættu og nauðsynlegar mótvægisaðgerðir vegna hliðarvinds á þær flugbrautir sem eftir yrðu við lokun stuttu brautarinnar. Var í skýrsla EFLU ætíð stuðst við verstu mögulegu aðstæður en skýrslan er ekki áhættumatið sjálft.

Engin niðurstaða hjá samráðshópi

Samráðshópi sem Isavia hafði kallað til, voru kynnt áðurnefnd gögn og greining þeirra í desember sl. Þar kom fram að aðstæður þegar hliðarvindur leiddi til áhættu vöruðu í umtalsvert styttri tíma en hið huglæga mat hafði byggt á. Samráðshópnum tókst ekki að komast að niðurstöðu um áhættu af breytingunni þar sem hagsmunaaðilar vefengdu nú þau ítarlegu gögn sem lögð höfðu verið fram. Hafði ferlið þá tekið nærri ár í framkvæmd. Endurtóku sérfræðingar Isavia matið og var m.a. horft til sömu áhættuþátta og áður höfðu komið fram. Drög að áhættumati vegna fyrirhugaðra breytinga á Reykjavíkurflugvelli hafa nú í annað sinn verið send Samgöngustofu í samræmi við verklagsreglur.

Framhald þessa máls er nú í höndum Samgöngustofu sem mun fara yfir það í samræmi við verklag stofnunarinnar. Að því loknu mun félagið greina ráðherra frá niðurstöðu svo stjórnvöld geti tekið ákvörðun um framhald málsins.

Að lokum skal tekið fram að flugvellir landsins eru ríkiseign og eru reknir í samræmi við þjónustusamning innanríkisráðuneytisins við Isavia. Ákvarðanir um breytingar á rekstri eða nýtingu samgöngumannvirkja á borð Reykjavíkurflugvöll er ákvörðun stjórnvalda. Félagið starfar í samræmi við lög og reglur sem byggja á alþjóðlegum stöðlum og samkvæmt stafsleyfi og eftirliti Samgöngustofu sem er opinber eftirlitsaðili með öryggi í flugi. Isavia hefur engra hagsmuna að gæta annarra en að tryggja að faglega sé staðið að rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu.