Hoppa yfir valmynd
2.3.2018
Bókanir á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll fara vel af stað

Bókanir á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll fara vel af stað

Mynd úr safni
 
Þann 1. mars tók Isavia í gagnið nýja gjaldskrá við langtímastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar en nýlega var tekið í notkun nýtt bókunarkerfi á vef flugvallarins til að panta bílastæði fram í tímann. Á sama tíma mun gjald við hlið hækka en hægt verður að fá bílastæði á betri kjörum en áður ef bókað er á netinu með góðum fyrirvara.
 
Að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs hjá Isavia fóru bókanir á flug um leið og tilkynnt var um breytt fyrirkomulag við bílastæðin. „Við sáum mjög fljótlega að viðskiptavinir okkar tóku vel í þetta nýja framtak og höfum við til að mynda séð um 400% aukningu á bókunum í gegnum kerfið frá því að við tilkynntum um það í byrjun febrúar sem fer fram úr okkar björtustu vonum. Við fögnum því að fólk sýni fyrirhyggju þegar kemur að ferðalagi sínu og vonum að þetta verði til þess að farþegar panti bílastæði við flugvöllinn á sama tíma og flugmiða til að fá enn betri kjör.“
 
Við bókun í netkerfi flugvallarins fær viðskiptavinurinn kóða sem hann skannar við hlið, bæði við komu og brottför og hefur ferlið því verið einfaldað töluvert með nýju bókunarkerfi.