Hoppa yfir valmynd
17.7.2018
Bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna gjaldtöku á ytri rútustæðum

Bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna gjaldtöku á ytri rútustæðum

Í bréfi dagsettu í dag 17. júlí tilkynnti Samkeppniseftirlitið að stofnunin hafi tekið bráðabirgðaákvörðun vegna gjaldtöku á fjarstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem Isavia er gert að stöðva tímabundið gjaldtöku á ytri rútustæðum, sem hófst 1. mars 2018. Bráðabirgðaákvörðunin gildir til 31. desember 2018.

Isavia vill taka það fram að farið verður að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og gjaldtöku hætt strax í dag. Um leið vill félagið koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þessa ákvörðun, hvaða áhrif hún hefur og hver raunveruleg samkeppnisstaða Keflavíkurflugvallar er.

Eitt af brýnustu verkefnum sem Isavia stendur frammi fyrir er uppbygging Keflavíkurflugvallar sem alþjóðaflugvallar. Isavia er félag í eigu ríkisins og hefur sjálfstæðan fjárhag og verður því að fjármagna alla uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar með gjaldtöku. Þeirri gjaldtöku hefur félagið hagað í samræmi við bæði íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og leiðbeiningar alþjóðastofnana. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við hvernig rekstri og uppbyggingu samkeppnisflugvalla okkar í Evrópu og Ameríku er háttað.

Isavia er meðvitað um það mikilvæga hlutverk sem félagið gegnir í samgöngum Íslendinga við umheiminn og leggur áherslu á að stuðla áfram að kröftugri uppbyggingu og þjónustu við alla þá sem um fara um Keflavíkurflugvöll. 

 

Samskipti við Samkeppniseftirlitið

Isavia hefur í samskiptum við Samkeppniseftirlitið lýst með ítarlegum hætti þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar gjaldtökunni sem nú hefur tímabundið verið stöðvuð og kostnaði félagsins af innviðum sem tengjast henni. Jafnframt hefur félagið lýst þeim sjónarmiðum sem liggja almennt til grundvallar rekstri flugvalla í sambærilegum rekstri, sjónarmiðum sem Alþjóðaflugmálastofnunin ICAO hefur lagt áherslu á og lögð eru til grundvallar gjaldtöku á flugvöllum m.a. þeirra sem Keflavíkurflugvöllur er í samkeppni við eins og margoft hefur komið fram. 

Isavia telur að horft hafi verið fram hjá þessum sjónarmiðum við töku ákvörðunarinnar. Isavia er því ósammála niðurstöðunni. Félagið mun því andmæla ákvörðuninni og leita leiða til þess að hún verði endurskoðuð.  

Í samræmi við bráðabirgðaákvörðunina verður innheimta gjalda stöðvuð meðan bráðabirgðaákvörðunin er í gildi en verði ákvörðuninni hnekkt í kærumeðferð eða fyrir dómstólum mun verða innheimt fyrir tímabilið sem stöðvunin nær til. Ef í ljós kemur að gjaldtaka Isavia hafi verið óheimil mun fyrirtækið endurgreiða hópferðafyrirtækjum þau gjöld sem innheimt hafa verið frá því innheimta hófst.

Isavia telur rannsókn málsins byggða á ófullnægjandi upplýsingaöflun og rökstuðningi.

 

Ákvörðunin skekkir samkeppnisstöðu

Þessi bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins skekkir samkeppni í farþegaakstri frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þau fyrirtæki sem nota ytri hópbifreiðastæðin eru í beinni samkeppni við þau fyrirtæki sem nota aðstöðu við flugstöðina og boðin var út á síðasta ári. Þau tvö fyrirtæki sem unnu útboðið um aðstöðu við flugstöðina munu halda áfram að greiða í samræmi við útboðsskilmálana og verða einu hópferðafyrirtækin sem greiða fyrir aðstöðu við flugstöðina. Isavia lítur svo á að nauðsynlegt sé að samkeppni og gjaldtaka sé eðlilegt og í jafnvægi. Því mun félagið leitast við að þessi bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði endurskoðuð.

Isavia mun áfram leitast við að eiga í góðu samstarfi við notendur Keflavíkurflugvallar því það skiptir geysilega miklu máli að völlurinn verði áfram byggður upp og efldur til þess að hægt verði að halda áfram að efla Ferðaþjónustuna á Íslandi með því að fá fleiri til að heimsækja landið og að við verðum ekki undir í harðri samkeppni við aðra flugvelli.