Hoppa yfir valmynd
6.4.2016
Breytingar á merkingum brottfararhliða á Keflavíkurflugvelli

Breytingar á merkingum brottfararhliða á Keflavíkurflugvelli

Isavia hefur undanfarið unnið að breytingum á skiltum og leiðbeiningarkerfi flugvallarins í heild með það að markmiði að auðvelda farþegum að komast leiðar sinnar innan flugstöðvarinnar. Við vinnuna hefur Isavia notið ráðgjafar frá danska fyrirtækinu Triagonal sem hefur mikla reynslu af hönnun upplýsingaskiltakerfa meðal annars fyrir flugvelli, lestarstöðvar og sjúkrahús.

Hlið verða nú aðgreind með lit og bókstaf eftir því í hvaða hluta flugstöðvarinnar þau eru og hvort þau eru fyrir flug til áfangastaða innan eða utan Schengen svæðisins. Leiðbeiningakerfið er hugsað til framtíðar og mun falla vel að framtíðaruppbyggingu samkvæmt þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar.

Að neðan má sjá hvernig númer núverandi hliða munu breytast. Hliðin sem hafa bókstafina A og C eru fyrir áfangastaði innan Schengen svæðisins en þau sem hafa bókstafinn D eru fyrir áfangastaði utan Schengen. Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir nýjum brottfararhliðum til austurs og vesturs frá norðurbyggingu. Þau nýju hlið munu í framtíðinni vera merkt A og B og hliðin í suðurhluta flugstöðvarinnar bera bókstafina C og D.

Merkingum verður breytt í kvöld, 6. apríl, og nýjar merkingar munu því gilda um morgunflug í fyrramálið, 7. apríl.