Hoppa yfir valmynd
4.5.2022
Brotlending flugvélar sett á svið á Þórshafnarflugvelli

Brotlending flugvélar sett á svið á Þórshafnarflugvelli

Fimmtíu manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Þórshafnarflugvelli laugardaginn 30. apríl síðastliðinn. Brotlending flugvélar með þrettán manns innanborðs var sviðsett. Eldar loguðu á vettvangi og sjálfboðaliðar voru í hlutverki slasaðra nærri flaki flugvélarinnar. Klippum var m.a. beitt til að ná fólki út úr flakinu.

Elva Tryggvadóttir, verkefnisstjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, segir að æfingin hafi gengið afar vel. Með æfingu sem þessari gefst færi á að fara yfir og styrkja enn frekar flugslysaáætlanir fyrir viðkomandi flugvelli og efla heildar viðbragðið ef flugslys kemur. Á æfingunni á Þórshafnarflugvelli hafi hópslysaviðbragð fyrir svæðið verið æft.

Flugslysaæfingar eru unnar í samstarfi Isavia og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra með lögreglu í hverju héraði fyrir sig, hjúkrunar- og sjúkraflutningafólki, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum Rauða kross Íslands og fleiri aðilum.

Æfingar sem þessar eru vanalega haldnar á fjögurra ára fresti en það hefur tafist vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þrjár flugslysaæfingar til viðbótar verða haldnar á þessu ári. Næsta er á Ísafjarðarflugvelli 24. september. Síðan verður æfing á Reykjavíkurflugvelli 1. október og að lokum á Akureyrarflugvelli 14. október.