Hoppa yfir valmynd
11.6.2024
EasyJet bætir Manchester við sem áfangastað á Akureyrarflugvelli næsta vetur

EasyJet bætir Manchester við sem áfangastað á Akureyrarflugvelli næsta vetur

Breska flugfélagið easyJet tilkynnti í dag, þriðjudaginn 11. júní, að það muni bjóða upp á flug frá bæði London Gatwick og Manchester til Akureyrarflugvallar næsta vetur. Tilkynningin kemur í kjölfarið á góðum vetri hjá easyJet sem bauð þá í fyrsta sinn upp á flug frá London til Akureyrar. Flogið verður á laugardögum og þriðjudögum til Manchester og London Gatwick.

Í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands segir Ali Gayward, svæðisstjóri easyJet í Bretlandi, þessi tíðindi mikið fagnaðarefni. „Sem eina flugfélagið sem býður beint flug frá Bretlandi til Norðurlands, er það okkur sönn ánægja að bjóða upp á annan valmöguleika í flugi til Akureyrar frá Manchester flugvelli til viðbótar við brottfarir frá London Gatwick. Þetta býður ferðalöngum í bæði Bretlandi og á Norðurlandi fleiri möguleika og tengingar. Við erum staðráðin í að styðja við þróun ferðaþjónustu á Íslandi og hlökkum til að bjóða okkar viðskiptavini velkomna um borð næsta vetur,“ segir Ali Gayward.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir það vera stórgóðar fréttir að easyJet ætli ekki aðeins að fljúga áfram milli Akureyrar og London næsta vetur heldur einnig að bæta við Manchester sem áfangstað. „Það gekk afskaplega vel að taka á móti flugi easyJet á Akureyrarflugvelli síðasta vetur og nú þegar hyllir undir lok framkvæmda vegna stækkunar flugstöðvarinnar verður ánægjulegt að taka á móti flugvélum félagsins frá bæði London og Manchester næsta vetur,“ segir Sigrún.