Hoppa yfir valmynd
10.10.2013
easyJet flýgur á milli Íslands og Sviss

easyJet flýgur á milli Íslands og Sviss

easyJet hyggst hefja beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Basel í Sviss í apríl á næsta ári. Fyrsta flugið til Basel verður 2. apríl og flogið verður tvisvar sinnum í viku, á miðvikudögum og laugardögum, fram í lok september.

Basel er fimmta flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til Lundúna, Manchester og Edinborgar allt árið um kring, auk þess sem beint flug til Bristol hefst á vegum félagsins eftir nokkrar vikur.

Basel er þriðja stærsta borgin í Sviss. Í sjálfri borginni búa tæplega 170 þúsund manns en íbúarnir eru alls um 850 þúsund séu nágrannabyggðir taldar með. Basel er falleg miðaldaborg sem liggur við landamærin að Frakklandi og Þýskalandi, á svæði sem kallað er Þrílandahornið (Dreiländereck), og er borgin klofin í tvennt af Rínarfljóti sem rennur í gegnum miðbæinn. Margt er að skoða í borginni, söfn og markaðir auk þess sem þar má finna fjölmarga spennandi matsölustaði.