Hoppa yfir valmynd
25.5.2023
EasyJet flýgur milli Akureyrar og London næsta vetur

EasyJet flýgur milli Akureyrar og London næsta vetur

Breska flugfélagið easyJet tilkynnti í dag að það ætlaði að hefja beint áætlanaflug milli Akureyrarflugvallar og Gatwick-flugvallar í London næsta vetur. Fyrsta flugferðin verður 31. október. Flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum, út mars 2024.

Búið er að opna fyrir bókanir í flug milli Gatwick og Akureyrar á vef easyJet. Flugfélagið er í samstarfi við ferðaskrifstofuna easyJet Holidays sem mun einnig bjóða upp á pakkaferðir til Norðurlands í tengslum við flug easyJet.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, fagnar ákvörðun breska flugfélagsins. „Það er mikið gleðiefni að easyJet hafi ákveðið að hefja flug til Akureyrar í vetur. Við tökum vel á móti farþegum þeirra. Það er sérstaklega gaman að fá þessa auknu umferð nú þegar styttist í að viðbygging við flugstöðina verði tekin í notkun og öllum framkvæmdum á vellinum síðan lokið vorið 2024.“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir vetrarflug easyJet árangur áralangrar undirbúningsvinnu og samstarfs, þar sem ótalmörg hafi lagt hönd á plóg. Það megi segja að nýr áfangastaður sé að verða til fyrir Breta með flugferðum easyJet og að sama skapi verði til spennandi valmöguleiki fyrir ferðalög heimafólks og annarra atvinnugreina, bæði til Bretlands en einnig í tengiflugi í gegnum Gatwick.