
easyJet flýgur nú frá Keflavík til Belfast
Flugfélagið easyJet hóf sl. föstudag flug á milli Íslands og Belfast á Norður-Írlandi. EasyJet flýgur nú til átta áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli.
Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum, á Airbus A319 sem tekur 156 farþega en um er að ræða eina beina flugið á milli Keflavíkur og N-Írlands. Reiknað er með að yfir 30.000 farþegar muni ferðast á milli staðanna tveggja fyrsta árið. Farmiðar allt fram í október 2015 eru komnir í sölu á heimasíðu félagsins, www.easyJet.com.
Til að fagna jómfrúarfluginu var bökuð kaka fyrir farþega í fyrsta fluginu frá Keflavík. Ungur farþegi, íslenskur drengur, klippti á borðann ásamt áhafnarmeðlimi fyrstu vélarinnar. Drengurinn var í fylgd móður sinnar en þau voru á leið að heimsækja íslenska ættingja sína á Norður-Írlandi.


