Hoppa yfir valmynd
13.12.2013
easyJet hefur flug til Bristol - starfsmenn Isavia bökuðu íslenskar pönnukökur fyrir farþega

easyJet hefur flug til Bristol - starfsmenn Isavia bökuðu íslenskar pönnukökur fyrir farþega

easyJet hóf í dag beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Bristol í Englandi. Þetta er fjórða flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til London, Manchester og Edinborgar.
 
Til að fagna þessari nýjustu flugleið bauð starfsfólk Isavia flugfarþegum sem voru að koma frá eða voru á leið til Bristol, Manchester og London með easyJet upp á íslenska jólakræsingar: Nýbakaðar pönnukökur, randalínur, jólasmákökur, mandarínur, malt og appelsín og heitt kakó. Alls voru það um 900 manns sem fengu að kynnast íslenskri jólastemningu og hlýða á ljúfa tóna íslenskra jólalaga.
 
Flogið verður til Bristol tvisvar í viku allt árið um kring, á fimmtudögum og sunnudögum.
 
Keflavík - Bristol er fyrsta heilsársflugleiðin frá Íslandi sem hleypt er af stokkunum í desembermánuði. Algengast er að flugfélög kjósi að fara af stað með nýjar flugleiðir á háannatíma, s.s. í byrjun sumars en easyJet hefur mikla trú á möguleikum Íslands sem áfangastaðar allt árið.
 
Bristol þykir með fallegri borgum Englands og eru íbúarnir um 440 þúsund. Andrúmsloftið er sagt líflegt en afslappað og afþreying næg. Fjölda safna og verðlaunaðra veitingastaða er að finna í borginni auk verslana af öllu tagi. Í Bristol Shopping Quarter, í hjarta borgarinnar, eru nokkur hundruð verslanir, þ. á m. Harvey Nichols og ein stærsta Primark-búð landsins. Þeir sem vilja lyfta sér upp eftir langan dag hafa úr mörgu að velja en í Bristol er fjöldi kráa, tónleikastaða, skemmtistaða og næturklúbba.
 
Stutt er í borgirnar Cardiff í Wales (50 mín), Southampton og Oxford. Því er skammt fyrir ferðalanga að sækja menningu, kíkja í stærri fataverslanir eða fara á fótboltaleiki. Miðaldabærinn Bath er svo í 15 mínútna fjarlægð en þangað hafa margir Íslendingar lagt leið sína í gegnum tíðina. Þá eru aðeins um 100 km til  London.
 
Hugh Aitken, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi:
„Við hjá easyJet erum afar spennt að geta boðið upp á þessa nýju flugleið. Við erum stolt af því að geta boðið ódýrari valkosti í flugi og áfangastaði sem Íslendingum hefur ekki boðist áður. Við viljum halda áfram að vaxa á Íslandi og höfum fulla trú á að þessari flugleið verði vel tekið, líkt og öðrum sem við bjóðum upp á frá landinu.“