Hoppa yfir valmynd
30.9.2013
easyJet kynnir fyrsta beina flugið á milli Keflavíkur og Bristol

easyJet kynnir fyrsta beina flugið á milli Keflavíkur og Bristol

EasyJet hyggst hefja beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Bristol í Englandi. Þetta verður fjórða flugleið easyJet frá Íslandi, en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til Lundúna, Manchester og Edinborgar. Fyrsta flugið til Bristol verður farið 12. desember nk. og flogið verður tvisvar í viku allt árið um kring.

Bristol þykir með fallegri borgum Englands og eru íbúarnir um 433 þúsund. Stutt er til borganna Cardiff í Wales (50 mín), Southampton og Oxford. Því er skammt fyrir ferðalanga að sækja menningu, kíkja í stærri fataverslanir eða fara á fótboltaleiki. Miðaldabærinn Bath er svo í 15 mínútna fjarlægð en þangað hafa margir Íslendingar lagt leið sína í gegnum tíðina. Þá er London í um 100 km fjarlægð.

Hugh Aitken, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi segir: „easyJet hefur verið afar ánægt með flugleiðir sínar til og frá Íslandi. Með þessari nýju leið frá Reykjavík til Bristol höldum við áfram að vinna að því markmiði okkar að gera ferðalög þægileg og hagkvæm, hvort heldur sem er fyrir þá sem ferðast vegna viðskipta eða fyrir þá sem ferðast í frítíma sínum. Ferðalög frá Bretlandi til Íslands eru afar vinsæl og easyJet flytur sífellt fleiri ferðamenn til landsins og við leggjum þannig okkar af mörkum til íslenskrar ferðaþjónustu. Við erum þess fullviss um að nýja flugleiðin til Bristol, sem verður hleypt af stokkunum að vetrarlagi og verður í boði allt árið um kring, verði jafnvinsæl og aðrar flugleiðir okkar frá Luton í London, Manchester og Edinborg."

Fyrsta flugið á milli Keflavíkur og Bristol verður 12. desember og verður flogið á fimmtudögum og sunnudögum upp frá því.