Hoppa yfir valmynd
29.2.2016
Enn frekari fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll – markviss markaðssetning skilar betri dreifingu farþega

Enn frekari fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll – markviss markaðssetning skilar betri dreifingu farþega

Ekkert lát er á fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll og miðað við breytingar á flugáætlunum 2016 hjá þeim flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli þá lítur út fyrir að enn fleiri farþegar muni fara um flugvöllinn en farþegaspá Isavia, sem gefin var út í nóvember 2015, gerði ráð fyrir. Lokaskil flugáætlana flugfélaga var 31. janúar síðastliðinn og gefa þau endanlega mynd af því hvernig áætlanir þeirra líta út. Uppfærð spá gerir ráð fyrir að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll árið 2016 verði 6,66 milljónir en fyrri spá gerði ráð fyrir um 6,25 milljón farþegum. Farþegar voru 4,86 milljónir árið 2015 og því er gert ráð fyrir 37% aukningu á milli ára. Þá gerði farþegaspáin sem kynnt var í nóvember á síðasta ári ráð fyrir því að fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til landsins á árinu 2016 yrði rúmlega 1,5 milljónir, en nú er útlit fyrir að þeir verði rúmlega 1,7 milljónir. Heildartala farþega um flugvöllinn skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og er skiptingin nokkuð jöfn eða rúmar 2,2 milljónir farþega í hverjum flokki.

 

Farþegar um Keflavíkurflugvöll:

 

Heildarfjöldi farþega

Erlendir ferðamenn til Íslands

2014

3.867.418

969.181

2015

4.858.503

1.262.938

2016 (spá)

6.660.380 (spá)

1.730.967 (spá)

 

Það er ánægjulegt að viðbótin við aukninguna, sem áður var spáð um, kemur að mestu leyti utan háannatíma, bæði innan hvers sólarhrings, þar sem aukningin er mest utan álagstíma, en einnig árstíma, en mesta aukningin er áætluð frá september og út árið.

Isavia hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að anna aukinni umferð. Starfsfólki hefur verið fjölgað meira en áður var stefnt að og verið er að reisa 3.000 fermetra byggingu sem hýsir stærra farangursflokkunarkerfi, svo dæmi séu tekin. Þá hefur flugstöðin verið stækkuð á marga aðra vegu og verður í sumar um 10 þúsund fermetrum stærri en í byrjun sumars 2015. Þar að auki hefur flæði verið bætt með því að auka sjálfvirkni, bæta aðstöðu og fjölga starfsfólki. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir fyrir samtals um 20 milljarða króna á Keflavíkurflugvelli, sem munu auka afköstin enn frekar og bæta flæðið innan flugstöðvarinnar til næstu ára.

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og glöggt vitni um að markaðssetning okkar og ferðaþjónustunnar allrar hefur gengið eftir,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Við höfum reynt að stýra því með hvatakerfi að flugfélög sjái hag í því að fljúga til Íslands yfir vetrartímann og það hefur þegar skilað sér. Gagnvart flugfélögunum höfum við markaðssett afgreiðslutíma utan mestu álagstímanna á hverjum sólarhring og það hefur borið árangur. Með þessu nýtum við mun betur þá fjárfestingu sem er til staðar á Keflavíkurflugvelli og þrátt fyrir að afkastageta flugvallarins sé fullnýtt á álagstímum þá er hægt með betri dreifingu að fjölga erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands og stuðla að auknum gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins.“

Mikil fjölgun ferðamanna hefur kallað á miklar framkvæmdir og samkvæmt Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar mun völlurinn geta tekið á móti 14 milljónum farþega árlega, miðað við núverandi dreifingu farþega innan sólarhringsins, þegar framkvæmdum er lokið. Framkvæmdirnar verða hins vegar teknar í skrefum til að mæta fjölguninni sem best.

„Flugfélögin sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli hafa vaxið mjög hratt og framkvæmdir á flugvöllum eru í eðli sínu tímafrekar. Þær geta því illa haldist í hendur við svo mikla aukningu sem raun ber vitni nema hún verði utan mestu álagstímanna. Flugvöllurinn er þétt setinn á álagstímum en enn er nóg pláss utan þeirra. Það er því ánægjulegt að tekist hafi að dreifa álaginu betur þar sem þannig er hægt að mæta fjölguninni. Við erum með stór framkvæmdaverkefni í gangi og miklar áætlanir til framtíðar en stærsta verkefni okkar til næstu ára verður að halda áfram þessari vegferð svo Ísland geti vaxið áfram sem ferðamannaland.“ segir Björn Óli.