Hoppa yfir valmynd
21.6.2023
Epal og Kormákur & Skjöldur opna á Keflavíkurflugvelli

Epal og Kormákur & Skjöldur opna á Keflavíkurflugvelli

Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar og hönnunarverslunin Epal hafa opnað saman nýja verslun á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða svokallað pop-up rekstrarrými sem verður starfrækt tímabundið á flugvellinum. Boðið er upp á úrval af heimsþekktum vörumerkjum, fatnað sem hentar vel við öll veðurskilyrði, eftirsóknarverðar gjafavörur og hönnunarvörur á góðu verði.

„Það er ánægjulegt og spennandi að vera komin aftur ,,heim“ í flugstöðina og erum við þakklát fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá bæði viðskiptavinum og starfsfólki. Hér bjóðum við upp á frábært úrval af fallegri hönnunarvöru og erum við sérstaklega ánægð með hversu vel tókst að gera þetta rúmgóða rými fallegt sem við deilum með okkar frábæra samstarfsaðila Kormáki og Skyldi,“ segir Guðný Hermannsdóttir, verslunarstjóri Epal.

„Þetta er virkilega spennandi verkefni að koma með Kormák & Skjöld inn á Leifsstöð og sérstaklega að fá að gera það með svona skemmtilegum samstarfsaðila eins og Epal. Við höfum náð að skapa skemmtilegan heim hérna á flugvellinum, fullan af fallegum fatnaði og gjafavöru og það er gaman að finna hvað ferðalangarnir hafa tekið okkur vel,“ segir Gunnar Hilmarsson, fatahönnuður hjá Kormáki og Skildi. 

Farþegafjöldi hefur aukist mikið á síðustu mánuðum en Keflavíkurflugvöllur er einn af fáum flugvöllum heims sem hafa náð fullri endurheimt farþega eftir heimsfaraldur. Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að 7,8 milljón farþega fari um Keflavíkurflugvöll árið 2023 sem yrði þriðji mesti fjöldi farþega um völlinn á einu ári frá upphafi.

„Það er gaman að sjá þessi tvö íslensku fyrirtæki opna útibú á Keflavíkurflugvelli. Kormákur & Skjöldur og Epal eru skemmtilegar verslanir með eftirsóknarverðar gjafavörur fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn og passa því virkilega vel í verslanaflóruna á flugvellinum. Okkar markmið er að gera Keflavíkurflugvöll að enn skemmtilegri viðkomustað og að farþegar njóti flugstöðvarinnar vel síðustu klukkustundirnar fyrir flug,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia.

Pop-up verslunin er staðsett á landganginum áður en komið er að hliði C.