Hoppa yfir valmynd
13.1.2017
Ert þú með góða viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu?

Ert þú með góða viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu?

Með fjölgun ferðamanna þarf að huga að því hvernig við fáum gestina okkar til að njóta fjölbreyttrar ferðaþjónustu um land allt. Margir þættir eru mikilvægir í þessu samhengi og má nefna auknar flugsamgöngur, fjölgun gistirýma, markaðssetningu og þróun ferðamannastaða og uppbyggingu þjónustu við ferðamenn. Eitt af því sem við hjá Isavia leggjum áherslu á er að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum og yfirvöldum um allt land við markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar með áherslu á sérkenni landshlutanna. Þannig viljum við byggja undir aukna möguleika í flugsamgöngum um allt land sem getur skapað ný tækifæri í ferðaþjónustu.

Lærðu undir leiðsögn sérfræðinga

Isavia er einn bakhjarla Startup Tourism ásamt Vodafone, Íslandsbanka og Bláa lóninu, en markmið verkefnisins er að frumkvöðlar í ferðaþjónustu um allt land geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd undir leiðsögn sérfræðinga. Verkefninu er stýrt af Icelandic Startups og er í samvinnu við Íslenska ferðaklasann. Í byrjun árs 2016 fóru 10 fyrstu frumkvöðlateymin í gegnum viðskiptahraðal, sem innifelur m.a. fræðslu og þjálfun í stofnun fyrirtækja og rekstri í ferðaþjónustu. Að námskeiðunum komu sérfræðingar og lykilaðilar í ferðaþjónustunni sem hjálpuðu sprotafyrirtækjunum að fóta sig og átta sig á tækifærum og rekstrargrundvelli hugmynda sinna. Við lok þessa ferlis kynntu frumkvöðlarnir fullmótaðar viðskiptaáætlanir fyrir mögulegum fjárfestum. Það er gaman að segja frá því að af þessum 10 verkefnum eru nú þegar 8 verkefni orðin að veruleika.

Skapaðu þín eigin tækifæri

Næsti viðskiptahraðall fer af stað nú í febrúar og þessa dagana er kallað eftir hugmyndum frá frumkvöðlum í ferðaþjónustu. Tíu verkefni verða valin til þess að móta sínar hugmyndir undir leiðsögn sérfræðinga og ástæða er til að hvetja áhugasama til að senda inn sínar viðskiptahugmyndir. Samkvæmt spám mun aukinn fjöldi ferðamanna heimsækja Ísland á næstu árum og ljóst er að í því liggja mikil tækifæri. Umsóknarfrestur er til 16. janúar og við hvetjum alla sem hafa áhuga til að taka þátt. Allar upplýsingar og umsóknarform er á vefnum www.startuptourism.is. Tækifærið er núna!

 

Gunnar Kr. Sigurðsson

Markaðsstjóri Isavia