Hoppa yfir valmynd
6.2.2019
FARÞEGAFJÖLDI Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI Í JANÚAR

FARÞEGAFJÖLDI Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI Í JANÚAR

Farþegar sem fóru um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum janúarmánuði voru 535.210 talsins en í nýútgefinni farþegaspá Isavia var gert ráð fyrir að þeir yrðu 548.549. Þar munar 13.339 manns.

Þar af voru erlendir farþegar 139.055 en í spánni var gert ráð fyrir að þeir yrðu 147.144. Er það 5,8% fækkun frá sama mánuði 2018 og 5,5% minna en gert var ráð fyrir í farþegaspánni.

Á móti kemur á Íslendingar sem fóru um Keflavíkurflugvöll voru 40.585 í janúar sem er 3,9% aukning frá fyrra ári og 0,5% meira en gert var ráð fyrir í spánni.

Spá Isavia er byggð á bestu fáanlegum tölum, það er frá flugrekstraraðilum sjálfum. Eins og fram hefur komið í kynningum vegna farþegaspár 2019 og árin þar á undan, er um spá að ræða og getur hún tekið breytingum.

Helstu ástæður þess að nokkru munaði í janúar eru meðal annars að farþegaspá þessa árs var fullkláruð á grundvelli fenginna gagna um miðjan janúar, það er á bilinu 15. til 20. janúar. Þær tölur sem þá lágu fyrir bentu til að niðurstaðan fyrir mánuðinn yrði sú sem lögð var fram í spánni. Raunin varð öllu lakari síðustu 10 daga mánaðarins, meðal annars hvað varðar sætanýtingu heilt yfir.

Ástæður fyrir því að rauntölur urðu aðrar en spá gerði ráð fyrir voru meðal annars: 

  • Sætanýting í janúar 2018 var 78% en var 74% nú í nýliðnum janúar. Það er helsta skýring þess að farþegar voru færri en spáð var.
  • Sætaframboð flugfélaganna minnkaði um 1,9% á milli ára.
  • Heildarfjöldi farþega lækkaði um 6% milli ára, eða um 2,4 prósentustig frá því sem var spáð.
  • Komu- og brottfararfarþegum fækkaði um 3,6% frá fyrra ári eða 1,8% meiri fækkun en var spáð.
  • Skiptifarþegum fækkaði um 10,3% frá janúar 2018 sem er 3,7% meiri fækkun en var spáð.

Nú í byrjun febrúar er von á fyrstu ferð flugfélagsins Jet2.com til Keflavíkurflugvallar. Fyrsta flug þeirra verður fimmtudaginn 7. febrúar og mun félagið fljúga með farþega frá Bretlandseyjum, nánar tiltekið frá Glasgow, Newcastle, Leeds Bradford, Manchester og Birmingham. Samtals verður flogið hingað til lands tólf sinnum í vetur frá 7. febrúar til 21. mars.