Hoppa yfir valmynd
7.10.2021
Farþegar um Keflavíkurflugvöll gætu orðið tæpar 8 milljónir árið 2024

Farþegar um Keflavíkurflugvöll gætu orðið tæpar 8 milljónir árið 2024

Ný samantekt Isavia um mögulegan fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll næstu þrjú árin sýnir að ef bjartsýnustu spár ganga eftir gætu fleiri farþegar farið um flugvöllinn árið 2024 en árið 2019, þ.e. áður en Covid-19 heimsfaraldurinn skall á.

Rúmlega 7 milljónir farþegar fóru um völlinn árið 2019 en í fyrra voru þeir aðeins 1,3 milljónir í samdrættinum vegna faraldursins. Sviðsmyndir félagsins gera ráð fyrir að þeir verði um 2,2 milljónir í ár, á bilinu 4-5 milljónir á næsta ári, 4-6 milljónir 2023 og síðan á bilinu 5,5 til 7,9 árið 2024.

2019

2020

2021

2022

2023

2024

Lág

 

 4.156.211

 4.821.204

 5.496.173

Grunn

 7.247.820

 1.373.968

 2.220.354

 4.588.711

 5.619.836

 6.790.450

 

 5.021.211

 6.445.336

 7.890.950

 

Samantekt þessi er ekki eiginleg farþegaspá eins og Isavia gaf út árlega fyrir heimsfaraldurinn. Síðasta farþegaspá, fyrir árið 2020, kom út í lok árs 2019. Síðan þá hefur fullkomin óvissa verið í flugheiminum vegna Covid og ómögulegt að spá nokkru um þróun mála.

„Þessar sviðsmyndir sem hér um ræðir eru gerðar m.a. til að auðvelda rekstraraðilum á flugvellinum að gera áætlanir fram í tímann og setja fram mögulegar forsendur, t.d. í samkeppni um aðstöðu fyrir þjónustu á vellinum,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Við gerð þessara farþegaforsendna var m.a. stuðst við opinberlega birtar áætlanir flugfélaga sem fljúga um Keflavíkurflugvöll.“

Gangi bjartsýnasta spáin fyrir árið 2024 eftir og farþegar um Keflavíkurflugvöll verða tæpar 7,9 milljónir talsins yrði það þriðji mesti farþegafjöldi sem farið hefur um flugvöllinn á einu ári. Farþegar voru fleiri árin 2017 og 2018.

„Rétt er þó að hafa í huga að lítið má í raun út af bregða til að þessar spár rætist ekki,“ segir Guðmundur Daði. „Endurheimt flugfarþega um Keflavíkurflugvöll þarf að vera hraðari en í sumar og haust. Harðar og síbreytilegar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum fæla erlend flugfélög frá landinu. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Flugtengingar tapast eða þeim fjölgar a.m.k. ekki en þessar tengingar eru mikilvæg forsenda lífsgæða á Íslandi.“

Guðmundur Daði bendir á að sumarið hafi gengið vel á Keflavíkurflugvelli - endurheimtin verið betri en á samkeppnisflugvöllum annars staðar í heiminum. „Keflavíkurflugvöllur hefur í ár endurheimt 79% þeirra áfangastaða sem voru í boði 2019 samanborið við 72%  í Kaupmannahöfn, 71% í Ósló, 67% í Stokkhólmi og 59% í Helsinki. Mikilvægt er að glutra þessu ekki niður  nú þegar vel gengur.“