Hoppa yfir valmynd
10.11.2016
Farþegar um Keflavíkurflugvöll komnir yfir sex milljónir í ár

Farþegar um Keflavíkurflugvöll komnir yfir sex milljónir í ár

Sex milljónustu farþegarnir, hjónin Jaqueline og Stephen Playford voru leyst út með gjöfum á Keflavíkurflugvelli í dag. 
 
 
Í dag var sex milljónasta farþega ársins fagnað á Keflavíkurflugvelli og er þetta í fyrsta sinn sem farþegar ná sex milljónum innan sama árs. Í september á þessu ári var tekið á móti fimm milljónasta farþeganum og er þetta einnig í fyrsta sinn sem tveir svona fögnuðir eru haldnir innan sama ársins. Það voru hjónin Jaqueline og Stephen Playford sem voru farþegar númer sex milljón og komu þau til landsins með Icelandair frá London Gatwick. Starfsfólk Isavia, Icelandair og Kynnisferða leysti hjónin út með blómum, skoðunarferðum um Ísland með Kynnisferðum, gjöf frá Cintamani og flugi á einhvern áfangastaða Icelandair. Þetta er í fyrsta sinn sem hjónin koma til Íslands og hugðust þau njóta náttúrunnar og vonuðust til að sjá norðurljósin. Þau voru að vonum hæstánægð með hinn óvænta glaðning.
 
Þegar sex milljónasti farþeginn fór í gegn skiptist farþegafjöldinn nánast jafnt í þrennt, tvær milljónir komufarþega, tvær milljónir brottfararfarþega og tvær milljónir skiptifarþega. Árið 2015 var fjöldi farþega 4,85 milljónir, en nú í ár gerir Isavia ráð fyrir að um 6,8 milljónir farþega fari um flugvöllinn. Fjölgunin hefur verið mjög hröð undanfarin ár en í ár verður fjöldi farþega ríflega þrefalt meiri en hann var árið 2010, þegar hann náði rétt yfir tveimur milljónum. Á næsta ári gera spár Isavia einnig ráð fyrir tveimur fögnuðum innan sama árs en gert er ráð fyrir að farþegafjöldi fari yfir átta milljónir og því tækifæri til að fagna bæði sjöundu og áttundu milljóninni.