Hoppa yfir valmynd
10.5.2023
Farþegar verði fyrr á ferðinni vegna mögulegra umferðatafa í tengslum við leiðtogafund

Farþegar verði fyrr á ferðinni vegna mögulegra umferðatafa í tengslum við leiðtogafund

Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Hörpu í Reykjavík dagana 16. og 17. maí. Lögregla hefur vakið athygli á því að búast megi við umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. 

Áhrifin vegna þessa eru talin verða mest á Reykjanesbraut eftir hádegi eða á milli kl. 14 og 17 á þriðjudeginum 16. maí og upp úr hádegi til kl. 15 á miðvikudeginum 17. maí.

Allir farþegar á leið um flugvellina tvo, sér í lagi þeir sem eru á leið með síðdegisflugi um Keflavíkurflugvöll, eru því hvattir til að leggja fyrr af stað en vanalega út á flugvöll til að hafa nægan tíma fyrir sér ef til umferðartafa kemur.  

Þá má búast við að lengri tíma geti tekið en vanalega að komast til og frá völlunum vegna mögulegra umferðartafa. 

Þá hefur komið fram í umfjöllun um viðburðinn að það verði tekin upp öryggisleit í innanlandsflugi dagana sem fundurinn er.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðum lögreglunnar, stjórnarráðsins og Visit Iceland.