Hoppa yfir valmynd
17.4.2024
Fjölbreytt starfsemi á Keflavíkurflugvelli

Fjölbreytt starfsemi á Keflavíkurflugvelli

„Starfsemin á Keflavíkurflugvelli er fjölbreytt og þar hefur verið mikil uppbygging í gangi bæði innan- og utanhúss síðustu ár. Á svæðinu starfa mörg fyrirtæki sem mynda öflugt flugvallarsamfélag. Isavia sér um rekstur og uppbyggingu flugvallarins og samhliða uppbyggingu hefur áhersla verið lögð á aukið viðhald eigna, enda gríðarlega mikilvægt að eignirnar séu tiltækilegar þegar á þarf að halda,“ segir Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia.

„Við sjáum um að reka og viðhalda eignum Isavia á Keflavíkurflugvelli og umfangsmestu eignirnar eru flugstöðin og flugbrautarkerfið. Flugstöðin sefur aldrei. Hún telur um 70 þúsund fermetra og við erum um þessar mundir að stækka flugstöðina um 25 þúsund fermetra. Þannig að flugstöðin verður um 95 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum. Við erum hins vegar í stöðugri uppbyggingu og verðum það áfram næstu ár. Flugstöðin fer stækkandi sem og flugbrautarkerfið okkar og við erum að fylgja þróunaráætlun til 2045,“ segir Maren.

Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia.

Í svona stóru mannvirki eins og flugstöðinni þá verða til einstök störf. „Við erum ávallt að bæta við okkur góðu og öflugu starfsfólki. Við erum að reka mjög stórt net myndavélkerfa og aðgangsstýringa sem vekur áhuga hjá þeim sem mennta sig í rafeindavirkjun eða rafiðnaði. Einnig er ýmiss konar búnaður sem finnst kannski ekki annars staðar, t.d. flugverndarbúnaður og má þar nefna gegnumlýsingarbúnað, málmleitarhlið og snefilgreiningartæki. Einnig eru tæknikerfi sem einfalda starfsemi á flugvallarsvæðinu líkt og  dokkukerfi sem gerir flugmönnum kleift að leggja flugvélum í stæði við landgöngubrýr.“

Fjöldinn allur af áhugaverðum búnaði

Maren segir að vinna við rekstur á svona búnaði sé mjög mikilvægur fyrir öryggi Keflavíkurflugvallar og krefst sérþekkingar. „Við hjá Isavia styðjum við endurmenntun starfsmanna og oft er þörf að senda starfsmenn erlendis til að ná í réttindi á þann sérhæfða búnað sem fyrirfinnst á Keflavíkurflugvelli. Við erum einnig með fjöldann allan af áhugaverðum búnaði eins og landgöngubrýr, farangurskerfi, eldsneytiskerfi og mikilvæga starfsemi líkt og rekstur veitna. Sem dæmi varðandi veitustarfsemina þá er hún mjög umfangsmikil og tekur mið af þörfum flugvallarsvæðisins og erum við að hefja uppbyggingu á vatnstanki um þessar mundir. Innviðir eins og veitur eru eignir sem við höfum þurft að endurmeta í ljósi eldgosa og virkni á Reykjanesskaga og styður við það að hér á Keflavíkurflugvelli vinnum við í einstaklega lifandi umhverfi.“

Maren segir að umhverfismál séu Isavia afar hugleikin. „Markmiðið er að starfsemi Keflavíkurflugvallar verði kolefnislaus árið 2030. Við erum sífellt að leita leiða til að minnka kolefnisspor og erum stolt af því að hafa náð fjórða stigi í kolefnisvottunarkerfi alþjóðasamtaka flugvalla (ACI). Við erum nýta rafbíla, skiptum út kælimiðlum og horfum á notkun lífeldsneytis í uppbyggingu innviða okkar í tengslum við þessi umhverfissjónarmið.“

Maren nefnir að í fjölbreyttu og lifandi umhverfi eins og á Keflavíkurflugvelli þurfi alltaf að horfa til tækniþróunar og hvaða leiðir séu bestar til að reka Keflavíkurflugvöll til framtíðar. „Við erum sífellt á tánum varðandi tækniframþróun og erum að skoða gervigreind, sjálfvirknivæðingu og vélmennavæðingu. Það eru svo sannarlega spennandi og áhugaverðir tímar fram undan,“ segir hún.