Hoppa yfir valmynd
12.9.2019
Fjölmenn flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli

Fjölmenn flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli

Rúmlega 150 manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Hornafjarðarflugvelli dagana 5. til 7. september síðastliðinn. Æfingin er sú fyrsta sem haldin verður á þessum vetri en fyrirhugað er að halda þrjár æfingar til viðbótar í vetur. Þær verða á Gjögur, Þórshöfn og í Keflavík. Rúmlega 50 flugslysaæfingar hafa verið haldnar af Isavia og samstarfsaðilum síðan árið 2000.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, stýrði æfingunni á Hornafjarðarflugvelli en hún var haldin af Isavia og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samstarfi við slökkvilið, björgunarsveitir, Rauða krossinn, slysavarnadeildina Framtíð og starfsmenn flugvallarins ásamt því að áhugasamir íbúar léku þolendur.

Elva segir að mikil samstaða hafi verið við æfinguna og viðbrögð góð. „Þetta gekk heilt yfir afskaplega vel og mikill og góður lærdómur dreginn af þeirri vinnu sem var unnin á æfingunni,“ segir Elva.

Um tíma þurfti að gera hlé á æfingunni vegna bílslyss sem varð í umdæminu. Þurftu viðbragðsaðilar að veita aðstoð vegna þess. „Sem betur fer var slysið ekki alvarlegt“ segir Elva. Því til viðbótar var leit á nálægu svæði á sama tíma en viðbragðsaðilar á svæðinu voru kallaðir til í þá leit í þann mund er æfingunni var að ljúka.