Hoppa yfir valmynd
17.9.2021
Fjölmenn flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

Fjölmenn flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

Hátt í 80 manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var af Isavia og Almannavörnum á Vestmannaeyjaflugvelli um síðustu helgi. Ríflega 70 flugslysaæfingar hafa verið haldnar af Isavia og samstarfsaðilum síðan árið 2000. Þrjár til fjórar æfingar eru haldnar ár hvert og færast með reglubundnum hætti milli áætlunarflugvalla á Íslandi.

Æfingin í Vestmannaeyjum er sú fyrsta sem haldin er síðan 2019 en flugslysaæfingar hafa ekki farið fram vegna Covid-19 faraldursins. Skipuleggjendur segja gott að hefja æfingaferlið að nýju og verða næstu æfingar 9. október á Þórshafnarflugvelli og 23. október á Keflavíkurflugvelli.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, segir að æfingin í Vestmannaeyjum hafi gengið vel. „Samkomutakmarkanir höfðu talsverð áhrif þar sem ekki var hægt að keyra heila æfingu með leikurum sem sjúklinga en nýjar útfærslur tókust vel. Þátttakendur tóku þátt í fyrirlestrum og æfðu síðan sín hlutverk en það eflir þann mikilvæga viðbúnað sem þarf að vera til staðar á hverjum stað ef vá ber að hendi á flugvelli,“ segir Elva. „Æfingin er haldin fyrir starfsfólk flugvalla sem og björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, slökkvilið, sjálfboðaliða Rauða krossins og fleiri sem að þessum málum koma. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið að þessi hópur sé samtaka og það var ánægjulegt að sjá hversu sterk og góð liðsheildin í Vestmannaeyjum var í öllu ferlinu. Flugslysaæfingar efla viðbragðsaðila í að vinna að hvers konar hópslysum sem orðið geta á svæðinu.“

Æfingin á Vestmannaeyjaflugvelli og nágrenni stóð frá fimmtudeginum 9. september til og með laugardeginum 11. september.

Á fimmtudeginum var boðun vegna flugslyss prófuð og boðið upp á fræðslu um ýmislegt á borð við sálrænan stuðning á slysstað, aðgerðastjórnun og bráðaflokkun slasaðra. Þá var Rannsóknarnefnd samgönguslysa með fræðsluerindi. Á föstudeginum var svokölluð skrifborðsæfing aðgerðarstjórnar ásamt fræðslu um aðgerðagrunn, störf aðhlynningarstjóra, eld í flugvélum og fleira.

Á laugardagsmorgninum var æfing á vettvangi og kveiktur eldur til að æfa viðbrögð flugvallarstarfsmanna og slökkviliðs Vestmannaeyja við flugslysi. Þá æfði Björgunarfélag Vestmannaeyja viðbrögð við flugslysi í fjalllendi.