Hoppa yfir valmynd
12.10.2022
Fjölmennasti september frá upphafi

Fjölmennasti september frá upphafi

Fyrsti mánuður haustsins gaf sumrinu lítið eftir á Keflavíkurflugvelli og var þar um að ræða fjölmennasta septembermánuð í brottförum Íslendinga frá upphafi mælinga. Samkvæmt bráðabirgðatölum lögðu 651.275 farþegar leið sína um Keflavíkurflugvöll og voru Kaupmannahöfn, París, Boston, New York og London vinsælustu áfangastaðirnir af þeim 72 áfangastöðum sem flogið var til.  

Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu var um að ræða fjórða fjölmennasta september mánuð frá því mælingar á brottförum hófust en brottfarir í september voru 76% af því sem þær voru í september 2018.  

Tæplega þriðjungur brottfara var tilkominn vegna Bandaríkjamanna en stærstu hópar erlendra ferðamanna á eftir Bandaríkjamönnum komu frá Þýskalandi, Bretlandi, Spáni og Frakklandi. Þá voru 10 stærstu þjóðernin í september 73% af heildar-brottfararfarþegum.