Hoppa yfir valmynd
4.6.2019
FJÖLMENNI Á FLUGDEGINUM

FJÖLMENNI Á FLUGDEGINUM

Það var fjölmenni á Reykjavíkurflugvelli þegar Flugdagur Flugmálafélags Íslands var haldinn þar í blíðskapar veðri laugardaginn 1. júní síðastliðinn. Hægt var að skoða ýmsar gerðir flugvéla, þar á meðal þristinn Pál Sveinsson sem er af gerðinni Douglas C-47A, Boeing 757 flutningavél frá Icelandair og flugbát af Catalina gerð. Boðið var upp á listflug og ýmis skemmtiatriði.

Mynd: Andrei Menshenin, Flugblogg.is

Á flugdeginum, sem er árlegur viðburður, var einnig haldið upp á 100 ára sögu flugs á Íslandi en þann 3. september árið 1919 hóf fyrsta flugvélin sig til lofts á Íslandi og gerðist það í Vatnsmýrinni. Flugmálafélagið, Þristavinafélagið og Isavia hafa minnst þessara tímamóta síðustu vikurnar.

Fyrst var því fagnað með komu fjöldamargra svonefndra þristavéla af gerðinni DC-3 sem komu hingað til lands á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í minningarathöfn vegna innrásarinnar í Normandí í júní 1944. Almenning var boðið að skoða þær vélar á Reykjavíkurflugvelli í síðari hluta maímánaðar.

Fimmtudaginn 23. maí flutti Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur, og höfundur bókarinnar Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi, erindi um sögu Reykjavíkurflugvallar. Fyrirlesturinn fór fram í fyrirlestrarsal Hótels Reykjavík Natura á Reykjavíkurflugvelli og var öllum opinn.

Fjallað var um flugvallargerðina á árum síðari heimsstyrjaldar, þróun flugvallarins og langvinnar deilur um staðsetningu og starfsemi Reykjavíkurflugvallar allt frá því að Bretar gerðu flugvöllinn. Arnþór  varpaði nýju og skýrara ljósi á ýmsa þætti málsins, meðal annars áhrif flugvallarins á þróun miðbæjarins.

Þriðjudaginn 28. maí bauð síðan Isavia öllu áhugafólki um þessa sögu í fræðslugöngu um Öskjuhlíð og Nauthólsvík undir leiðsögn Friðþórs Eydal sem hefur ritað fjölda bóka um hersetuna og umsvif erlendra herja á Íslandi. Upphaf Reykjavíkurflugvallar má rekja til hersetu landsins í síðari heimsstyrjöld. Hann er raunar, ásamt Keflavíkurflugvelli, minnismerki um þá viðsjárverðu tíma sem skópu örlög heimsins og íslensku þjóðarinnar. Á flugvellinum og í næsta nágrenni við hann eru víða merki um margvísleg umsvif á stríðsárunum, einkum í Öskjuhlíð og Nauthólsvík þar sem allmargar minjar um þessa merku sögu hafa verið merktar á viðeigandi hátt með glæsilegum söguskiltum.