Hoppa yfir valmynd
3.5.2023
Fjölmenni á flugslysaæfingu á Bíldudalsflugvelli

Fjölmenni á flugslysaæfingu á Bíldudalsflugvelli

Yfir hundrað manns tóku þátt í flugslysaæfingu á og við Bíldudalsflugvöll sem haldin var laugardaginn 29. apríl 2023. Æfð voru viðbrögð við flugslysi á eða nálægt flugvellinum. Líkt var eftir því að flugvél með 21 um borð hefði brotlent við brautarenda á vellinum.

Æfingin byggði á viðbragðsáætlun fyrir Bíldudalsflugvöll. Þátttakendur voru viðbragðsaðilar frá Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði. Aðgerðarstjórn var á Ísafirði og samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna þessa. Starfsfólk Isavia Innanlandsflugvalla æfðu viðbúnað sinn á Bíldudalsflugvelli sem og slökkvilið, fulltrúar almannavarna, lögreglu, björgunarsveita, Rauða krossins, Landhelgisgæslunnar og heilbrigðisstofnana.

„Æfingin gekk einstaklega vel og frábært að sjá hversu vel samræmdur hópur var að störfum, verkþáttastjórar og skipulag á vettvangi var til fyrirmyndar“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri. „Sem fyrr leggjum við hjá Isavia og Almannavörnum áherslu á að æfingar sem þessar veiti viðbragðsaðilum tækifæri til að reyna sig í þeim aðstæðum sem geta skapast þegar alvarleg slys ber að höndum. Þetta hristir hópana saman og vinnuferlar slípast til þannig að þau eru klár í slaginn ef hópslys eða önnur vá verður í umdæminu.“

Nýr eldfugl svokallaður var notaður á æfingunni á Bíldudalsflugvelli en það var í annað sinn sem hann kom við sögu á slíkri æfingu. Hann var fyrst notaður á æfingu á Vopnafjarðarflugvelli viku áður. Tvær aðrar flugslysaæfingar eru fyrirhugaðar síðar á þessu ári. Þær verða á flugvöllunum á Húsavík og Egilsstöðum.