
FJÖLMENNI Á FYRSTA OPNA LOKAVIÐBURÐI STARTUP TOURISM
Fjölmenni var á lokaviðburði Startup Tourism viðskiptahraðalsins sem haldinn var í Tjarnarbíó í Reykjavík miðvikudaginn 20. mars 2019. Þetta var í fyrsta sinn sem lokaviðburður viðskiptahraðalsins var opinn öllum og má gera ráð fyrir að vel á þriðja hundrað manns hafi mætt á hann.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar, nýsköpunar og dómsmála, flutti erindi á viðburðinum. Þar á eftir komu fulltrúar frá þeim tíu teymum sem tóku þátt í Startup Tourism þetta árið.
Startup Tourism viðskiptahraðallinn er sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu og hefur Isavia verið einn bakhjarla verkefnisins frá upphafi árið 2015. Verkefninu er ætlað að veita þátttakendum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskiptin blómstri.
Í fyrsta sinn í sögu hraðalsins vinnur helmingur hópsins sem tók þátt að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu á meðan hinn helmingurinn einbeitir sér að nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum.
Eftirtaldin tíu fyrirtæki tóku þátt í Startup Tourism árið 2018 og fluttu fulltrúar þeirra erindi á lokaviðburðinum:
BusTravel IT
Hugbúnaðarlausn sem eykur ánægju viðskiptavina og skilvirkni í rekstri
Film Iceland
Stafrænn ferðavísir sem gægist bak við tjöldin á kvikmyndatökustöðum landsins
GeoGardens
Samræktargróðurhús og veitingastaður á Hellisheiði
HandPicked Iceland
Leiðarvísir með ekta íslenskum upplifunum sem stuðla að grænni ferðamennsku
Iceland Bike Farm
Fjallahjólreiðar og einstök upplifun hjá hjólabændunum í Mörtungu
Iceland Outfitters
Faglegar og vinalegar veiðiferðir
Iceland Sports Travel
Sérhæfð íþróttaferðaskrifstofa með áherslu á ferðir íþróttahópa til Íslands
Selfie Station
Myndaupplifun við helstu kennileiti Íslands
Venture North
Ferðaþjónusta á Norðurlandi sem býður upp á ævintýraferðir á róðrabrettum
Wapp-Walking App
Leiðsagnarapp með fjölbreyttum leiðarlýsingum um allt land