Hoppa yfir valmynd
31.3.2022
Fjölsóttur kynningarfundur um tækifæri á Keflavíkurflugvelli

Fjölsóttur kynningarfundur um tækifæri á Keflavíkurflugvelli

Fjöldi fólks sótti opinn kynningarfund Isavia um útboð á rekstri tveggja veitingastaða á Keflavíkurflugvelli. Fundurinn var haldinn í Hörpu miðvikudaginn 30. mars síðastliðinn

Útboðsgögn vegna veitingastaðanna tveggja hafa verið birt á útboðsvef Isavia en samkeppnin sem nú er farin af stað er einnig auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Veitingastaðirnir tveir eru með ólíku sniði, annar staðurinn er stór og þarf að ná til breiðs hóps viðskiptavina. Hinn er smærri og veitingaúrvarið tengt við skandinavíska matargerð. Báðir staðirnir eru boðnir út saman og samningur til fimm ára. Markaðskönnun fór fram áður en útboðsgögn voru gefin út og var afstaða veitingamarkaðarins afdráttarlaus í að hugur markaðarins væri til þess að farsælla væri að bjóða út veitingastaðina saman enda felst í því mörg tækifæri.

Þá var við undirbúning þessarar samkeppni stuðst við þjónustumælingar meðal farþega sem gerðar eru á fjölda flugvalla, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Það er ASQ - Airport Service Quality - könnun á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla ACI - Airports Council International. Þar var spurt hvað farþegar vildu sjá til viðbótar við núverandi úrval. Þar kom fram að farþegar vildu sérstaka upplifun sem fangar tilfinninguna við nærumhverfið í stóru samhengi, þ.e. sense of place eins og það er nefnt.

Á fundinum kynnti Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, framtíðarsýn flugvallarins, þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar á vellinum og þær sem væntanlega verður ráðist verður í á næstu árum. Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia, fór þau tækifæri sem eru í boði í þessari nýjustu samkeppni og önnur tækifæri sem verða kynnt á næstu mánuðum.

Fram kom í máli Guðmundar Daða að nýja verslana- og veitingasvæðið sem er í byggingu verði ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð og með frekari framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar verði flugstöðin á Keflavíkurflugvelli orðin tvöfalt stærri eftir sex ár.

Í máli Gunnhildar kom fram að samningar við rekstraraðila sem eru starfandi í flugstöðinni renni út á næstu mánuðum auk þess sem sum svæði, sem nú eru notuð undir veitingarekstur, þurfi að víkja vegna framkvæmda. Samkvæmt lögum efni Isavia til samkeppni um ýmis tækifæri á næstu mánuðum þar með gleraugnaverslun, gjafavöru- og útivistarverslun, kaffihús og gjaldeyrisþjónustu svo eitthvað sé nefnt.

„Framtíðin er björt á Keflavíkurflugvelli og tækifærin næstu mánuði og ár mörg og spennandi,“ sagði Guðmundur Daði.