Hoppa yfir valmynd
7.5.2018
FJÓRAR SVIÐSMYNDIR UM ÞRÓUN Á SUÐURNESJUM

FJÓRAR SVIÐSMYNDIR UM ÞRÓUN Á SUÐURNESJUM

Fjórar sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnulífs á Suðurnesjum voru kynntar á fjölmennum fundi í Reykjanesbæ mánudaginn 7. maí. Þá var gefin út ný skýrsla um framtíð Suðurnesja árið 2040 sem unnin var af KPMG fyrir Isavia, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar – Kadeco og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Í skýrslunni er unnið með sviðsmyndagreiningu til að leita svara við og greina möguleikana hvað varðar þróun atvinnulífs á Suðurnesjum til framtíðar. Fram kemur í skýrslunni að sviðsmyndagreining er leið til þess að horfa inn í framtíðina og sjá hvernig hún getur þróast fyrir ákveðin fyrirtæki, atvinnugreinar, stofnanir og félagasamtök. Henni er ætlað að skilgreina hvaða drifkraftar eru líklegir til að móta framtíðina og kanna hvaða áhrif þróun þeirra muni hafa á starfsumhverfi. Unnið er með fjöldamargar spurningar í skýrslunni þar á meðal þessar:

  • Þegar horft er til þess að Dubai flugvöllur fór úr 10 milljón farþegum árið 2000 í 88 milljón farþega í dag er spurt hvort innviðir og samfélagið á Suðurnesjum sé búið undir svipaða umferð farþega um Keflavíkurflugvöll árið 2040?
  • Verða íbúar á Suðurnesjum þá orðnir 50 þúsund talsins og meirihluti þeirra af erlendu bergi brotinn?
  • Hvernig kemur flugborgin við Keflavíkurflugvöll til með að líta út?
  • Verða Suðurnesin miðstöð vöruflutninga á norðurslóðum?

Í kjölfar áfalla í tengslum við brotthvarf Bandaríkjahers og alþjóðlegt efnahagshrun hefur orðið ótrúleg uppbygging í atvinnulífi á Suðurnesjum og er svæðið orðið eitt helsta vaxtarsvæði landsins.

Aðal atvinnugrein svæðisins er ferðaþjónusta og þjónusta við flugstarfsemi. Ljóst er að ferðaþjónusta og starfsemi á Keflavíkurflugvelli mun hafa mikil áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum næstu ár og jafnvel áratugi.  Framtíðaruppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum mun að öllum líkindum ráðast að miklu leyti af fjölda alþjóðlegra samgöngutenginga, ekki síst beinna flugtenginga. Einnig mun skipta máli hvort áhersla verði lögð á virðisaukandi framleiðslu og þjónustu eða á magn og fjölda.

Hér má lesa skýrslu KPMG þar sem sviðsmyndirnar fyrir Suðurnes eru kynntar nánar.

Hér má sjá upptöku af kynningarfundi um skýrsluna (Víkurfréttir).