Hoppa yfir valmynd
14.4.2020
Fjórir milljarðar til innviðaverkefna á Keflavíkurflugvelli

Fjórir milljarðar til innviðaverkefna á Keflavíkurflugvelli

Þann 7. apríl síðastliðinn var greint frá því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði ákveðið að auka við hlutafé Isavia ohf. um fjóra milljarða króna með því skilyrði að félagið ráðist í innviðaverkefni á Keflavíkurflugvelli á þessu ári.

Þessi hlutafjáraukning gerir Isavia ohf. kleift að ráðast í verkefni sem snúa annars vegar að hönnun fyrir næstu stóru framkvæmd við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hins vegar að hönnun og framkvæmdir við vegi og flugvélaakbrautir á Keflavíkurflugvelli.

„Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að styðja við félagið gerir okkur mögulegt að ráðast í verkefni sem hefði annars ekki verið svigrúm til að fara af stað með á þessari stundu,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Hún býr ekki eingöngu til ný störf í framkvæmdunum sjálfum heldur getum við vegna hennar staðið vörð um fjölda starfa innan Isavia. Þá hefur innspýtingin jákvæð áhrif á Suðurnesjum. Þetta hjálpar okkur við að koma sterkari út úr þessum erfiðu tímum og gerir flugvöllinn enn samkeppnishæfari til framtíðar.“

Áætlaður fjöldi nýrra starfa sem verður til við þessar framkvæmdir nemur um 50-125 störfum fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021. Aðgerðirnar opna fyrir möguleika á frekari framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, fyrr en ella, upp á ríflega þrjá milljarða króna. Heildarumfang fjárfestinga sem tengjast hlutafjáraukningunni getur því numið ríflega sjö milljörðum króna yfir tveggja ára tímabil.

„Þetta eru krefjandi tímar. Við erum afar þakklát fyrir þessa mikilvægu ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem skiptir miklu máli fyrir Isavia, Suðurnesin og samfélagið allt,“ segir Sveinbjörn.