Hoppa yfir valmynd
3.5.2021
Fjórir nýir stjórnendur hjá Isavia

Fjórir nýir stjórnendur hjá Isavia

Fjórir nýir stjórnendur hafa nýverið tekið til starfa hjá Isavia. Þessi kröftugi hópur fólks sinnir fjölbreyttum og spennandi verkefnum hjá félaginu.

Þórhildur Rún Guðjónsdóttir er forstöðumaður viðskipta og markaðsmála hjá Isavia. Þórhildur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Síðustu ár starfaði hún sem framkvæmdastjóri m.a. hjá Nortek frá 2017 og Atlantik lögmannsstofu en áður sem vörustjóri og sérfræðingur á markaðsdeild Símans. Þórhildur stýrir nýrri viðskipta- og markaðseiningu sem ber ábyrgð á óflugtengdum tekjum Keflavíkurflugvallar, t.a.m. af verslunum, veitingum og samgöngum. Rekstrarreynsla Þórhildar mun m.a. nýtast við öflun viðskiptatekna og viðskiptaþróunar til að styrkja samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar, bæta upplifun og ánægju farþega og viðskiptafélaga.

Auður Ýr Sveinsdóttir er forstöðumaður flugverndar á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur síðastliðin fjögur ár verið aðstoðarforstjóri hátæknifyrirtækisins Völku, ásamt því að stýra rekstrar- og mannauðssviði félagsins. Þar áður var hún yfirmaður gæðastjórnunar, LEAN og innri samskipta hjá Rio Tinto (ISAL) í Straumsvík. Auður er með B.Sc. gráðu í sjávarvísindum frá Coastal Carolina University og M.Sc. í umhverfisefnafræði frá University of Maryland í Bandaríkjunum.

Raquelita Rós Aguilar er forstöðumaður starfrænnar þróunar hjá Isavia.  Raquelita er með BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Síðustu þrjú ár hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra Stokks hugbúnaðarhúss en þar á undan sinnti hún fjölbreyttum stjórnunarstöðum hjá því félagi. Raquelita hefur þróað og stýrt hönnunarsprettum með stærstu fyrirtækjum landsins og hefur aðstoðað fyrirtækin við skilgreiningu á hugbúnaði eða stafrænni vegferð. Hún er reyndur stjórnandi og hefur mikla tækniþekkingu sem mun nýtast vel í uppbyggingu upplýsingatækni hjá Isavia.

Brynjar Már Brynjólfsson er mannauðsstjóri Isavia. Brynjar starfaði áður sem mannauðsstjóri hjá Reiknistofu bankanna (RB) og þar áður hjá Origo, bæði sem ráðgjafi í mannauðsmálum og sem verkefnastjóri umbóta þar sem hann stýrði m.a. sameiningu Nýherja og dótturfélaga í Origo. Brynjar hefur einnig starfað við mannauðsmál hjá Landsvirkjun og Landsbankanum. Brynjar lauk B.A. gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006, M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2009 og er að ljúka MBA gráðu við Háskólann í Reykjavík núna í vor. Brynjar hefur setið í stjórn Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi og var formaður félagsins frá 2018 til 2020.