Hoppa yfir valmynd
6.9.2023
Fleiri kostir fyrir ferðalanga í haust

Fleiri kostir fyrir ferðalanga í haust

Framundan eru annasamir og skemmtilegir haustmánuðir á Keflavíkurflugvelli. Fjölbreytt úrval veitingastaða og verslana eru í boði í flugstöðinni til taka á móti breiðum hópi gesta með mismunandi þarfir. Fjöldi nýrra veitingastaða og verslana opnuðu nýverið til bæta enn frekar upplifun gesta flugvallarins og fjölga valmöguleikum fyrir þá.

Fjölbreyttari valmöguleikar fyrir gesti

Fjölbreytni og gleði verður allsráðandi í haust á Keflavíkurflugvelli en nýlega opnuðu samtals níu veitingastaðir og verslanir við mikinn fögnuð ferðalanga.

Veitingastaðurinn Elda opnaði á veitinga- og verslunarrými Keflavíkurflugvallar í maí. Á Elda er lögð áhersla á gæði og gott hráefni, fjölbreytta kosti eins og klassíska rétti með íslensku hráefni, góða grænmetis- og veganrétti og metnaðarfullan barnamatseðil. Ísey skyrbar er inni á staðnum með ferskar skálar í boði.

Eyesland gleraugnaverslun sem selur mörg af eftirsóknarverðustu merkjunum á gleraugum og sólgeraugum í dag og leggur verslunin áherslu á faglega og persónulega þjónustu.

Í maí mánuði opnaði einnig Sbarro veitingarými á fyrstu hæð í suðurbyggingu flugvallarins til að þjónusta farþega sem eru á leið frá landa utan Schengen-svæðisins. Sbarro býður gestum upp á úrval af nýbökuðum pizzum og pastaréttum ásamt sérstökum morgunverðarréttum.

Hin eina sanna Jómfrú opnaði í júní mánuði á Keflavíkurflugvelli. Jómfrúin, sem er mörgum landsmönnum að góðu kunn, býður upp á danskt smurbrauð en einnig klassíska heita rétti, úrval af kökum og tertum og auðvitað alls kyns drykki.

Í júní opnuðu herrafataverslun Kormáks & Skjaldar og hönnunarverslunin Epal saman nýja verslun. Boðið er upp á úrval af heimsþekktum vörumerkjum, fatnað sem hentar vel við öll veðurskilyrði, eftirsóknarverðar gjafavörur og hönnunarvörur á góðu verði.

Bæjarins beztu pylsur opnuðu í júlí sinn annan sölustað í ekta pylsuvagni. Vagninn er staðsettur á biðsvæði í suðurbyggingu sem farþegar á leið til Bretlands, Bandaríkjanna og annarra landa utan Schengen fara um.

Kaffihúsið Bakað, staðsett á innritunarsvæðinu á 1. hæð flugvallarins, opnaði sitt fyrra kaffihús í júlí en Bakað mun einnig opna annað kaffihús inni á verslunar- og veitingarrými Keflavíkurflugvallar síðar á árinu. Á Bakað er í boði gómsætt bakkelsi, nýbakað brauð og pizzur, heilsusamlegir safar, salöt og rjúkandi heitt gæðakaffi frá Te & kaffi.

Loks opnaði í júlí verslunin Icemart sem býður upp á úrval af vinsælum minjagripum, gjafavörum, ferðatengdum vörum og snarli fyrir flugið.

Hvað fleira er í boði í flugstöðinni?

Auk allra þessara nýju staða má finna fjölmarga aðra spennandi og góða veitingastaði í flugstöðinni eins og Mathús, Nord, Segafredo, Maikai og Loksins BarSíðan eru það staðirnir Hjá Höllu og Kvikk Café sem eru staðsettir á svæði C-hliða, eftir að gengið er út landganginn. Í komu- og brottfarasalnum er verslun 10-11 með ýmsa valmöguleika fyrir fólk á ferðinni.

Á flugvellinum er fjöldi verslana með íslenskar og alþjóðlegar vörur, þekkt vörumerki og fjölbreytt úrval. Má þar nefna verslanir 66°Norður, Fríhöfnina, Blue Lagoon, Elko, Rammagerðina og Pennann Eymundsson.