Hoppa yfir valmynd
31.5.2018
Flugferlar og umhverfismælingar til umræðu á íbúafundi

Flugferlar og umhverfismælingar til umræðu á íbúafundi

Starfsemin á Keflavíkurflugvelli og áhrif hennar á samfélagið var til umræðu á opnum íbúafundi sem Isavia hélt í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ kl. 17 miðvikudaginn 30. maí. Fjölmenni var á fundinum sem einnig var sendur út beint á vef Víkurfrétta.

Á fundinum var farið yfir þær framkvæmdir sem eru fram undan á Keflavíkurflugvelli. Einnig var farið yfir þær umhverfismælingar sem eru í gangi og kynntir nýir flugferlar. Farið var yfir spár um bein ný störf sem skapast vegna aukinna umsvifa á Keflavíkurflugvelli og hvaða vaxtarverkir það geti haft í för með sér.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, ávarpaði fundinn í upphafi og ræddi þá um uppfærða farþegaspá félagsins sem birt var á morgunfundi á Hótel Reykjavík Nordica í morgun. Uppfærð farþegaspá gerir ráð fyrir að erlendum farþegum til og frá Íslandi fækki en að tengifarþegum, sem millilenda á Keflavíkurflugvelli, fjölgi meira en gert var ráð fyrir í farþegaspánni sem birt var í lok nóvember í fyrra.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar, fjallaði í erindi sínu um þá uppbyggingarþróun sem fram undan sé á flugvellinum sem haldist í hendur við uppfærðar farþegaforsendur. Fram undan séu yfirgripsmiklar framkvæmdir þar sem landgangur verði breikkaður, landamærum breytt og biðsvæði og brottfararhlið bætt.

Haraldur Ólafsson, yfirflugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli, fjallaði um nýja flugferla. Hann gerði grein fyrir aðferðum Isavia til hávaðamildunar. Valur Klemensson, deildarstjóri umhverfisdeildar á Keflavíkurflugvelli, gerði grein fyrir umhverfismælingum á vegum Isavia – þ.e. hljóð-, loftgæða- og grunnvatnsmælingum.

Þá fór Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur og eigandi Aton ráðgjafarfyrirtækisins, yfir eftirspurn eftir beinum störfum á Keflavíkurflugvelli í ljósi uppfærðrar farþegaspár Isavia.

Fundarstjóri var Guðný María Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri á Keflavíkurflugvelli.

Hér má sjá glærur fyrirlesara á fundinum.