Hoppa yfir valmynd
23.2.2012

Flugsamgöngur betri og mikilvægari á Íslandi en í öðrum löndum

Niðurstöður rannsóknarfyrirtækisins Oxford Economics á efnahagslegu mikilvægi flugsamgangna á Íslandi voru kynntar á opnum fundi á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu í morgun. Hagfræðingur IATA, sem stóð fyrir gerð skýrslunnar, Julie Perovic, kynnti niðurstöður hennar á fundinum sem Flugmálastjórn Íslands, Isavia, SAF og Icelandair Group stóðu fyrir. Ísland er 56. landið í heiminum sem Oxford Economics rannsakar með sama hætti og niðurstöðurnar gefa ótvírætt til kynna að þjóðhagslegt mikilvægi flugstarfsemi er hvergi í heiminum meira en hér á landi.

Flugfélög með bækistöðvar á Íslandi annast 78% flugsins

Í niðurstöðum sínum segir Oxford Economics að rannsóknin hafi leitt í ljós hversu geysilega mikilvægt loftflutningakerfi Íslands er fyrir fyrirtæki og efnahag landsins. Þjóðhagsleg áhrif byggjast að mestu leyti á starfsemi íslenskra flugfélaga. Flugfélög með bækistöðvar á Íslandi annist 78% af öllu farþega- og fraktflugi. Laun, hagnaður og skatttekjur sem stafa frá þessum flugfélögum flæða um íslenska hagkerfið með margfeldisáhrifum á þjóðartekjur og landsframleiðslu. Auk þess auki starfsemin samkeppnishæfni og markaðstækifæri atvinnulífsins í landinu. Efnahagslegur ábati Íslands af erlendum flugfélögum felst í velferð viðskiptavina og því hlutverki sem þessi flugfélög, líkt og þau innlendu, gegna með því að halda opnum samgönguleiðum milli Íslands og erlendra borga og markaða.

12,9% af heildarvinnuafli landsins árið 2010

Flugrekstur hefur veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og stendur undir 6,6% af landsframleiðslu og 9.200 störfum, þ.e. 5,5% af vinnuafli landsins. Ef jafnframt er reiknað með framlagi greinarinnar til ferðaþjónustunnar hækka þessar tölur í 12,9% af landsframleiðslu og 20.600 störf, eða 12,3% af heildarvinnuafli landsins.

Þegar þessar tölur eru bornar saman við áhrif í öðrum Norðurlöndum kemur mikilvægið hér á landi enn betur í ljós. Í skýrslu Oxford Economics um Noreg kemur fram að framlag greinarinnar að meðtalinni ferðaþjónustunni er 2,6% af landsframleiðslu, í Svíþjóð er framlagið 3,9% og í Danmörku 2,3% af landsframleiðslu, en hér á landi 12,9% eins og áður var nefnt. Þá skapar greinin með sama hætti 2,1% af heildarvinnuafli í Noregi, 4,1% í Svíþjóð og 1,8% í Danmörku, en 12,3% hér á landi.

Einnig skiptir máli að framleiðni er mikil í þessum störfum. Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í flugþjónustu á Íslandi er 16 milljónir króna. Það er u.þ.b. 1,7 sinnum meira en meðaltalið á Íslandi, sem er 9,2 milljónir króna.

Verulegar skatttekjur

Skatttekjur af flugrekstri eru verulegar. Flugrekstur íslenskra fyrirtækja skilaði 10,1 milljarði króna í beina skatta og launatengd gjöld. Áætlað er að 15,4 milljarðar króna til viðbótar renni í ríkissjóð gegnum aðfangakeðju greinarinnar og 9,5 milljarðar að auki frá neyslu starfsmanna í flugrekstrinum sjálfum og aðfangakeðju hans.

Af þessu má sjá að flugrekstur leiðir af sér verulegan þjóðhagslegan ábata fyrir efnahag Íslands, auk þess sem sumir þessara þátta eru þess eðlis að ekkert getur komið í þeirra stað og þeir eru algerlega ómissandi fyrir nútímahagkerfi.
Á fundinum ræddu Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og atvinnumálaráðherra, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Pétur K. Maack, flugmálastjóri og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, efni skýrslunnar í pallborði.

Skýrslan í heild er aðgengileg hér.