Hoppa yfir valmynd
4.5.2013
Flugslysaæfing á Akureyrarflugvelli

Flugslysaæfing á Akureyrarflugvelli

Um fjögur hundruð manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Akureyrarflugvelli í dag. Æfingin byggir á flugslysaáætlun flugvallarins og þátttakendur frá öllum viðbragðsaðilum á svæðinu tóku þátt. Isavia stendur fyrir reglubundnum æfingum af þessu tagi í samstarfi við viðbragðseiningar og ráðgjafa frá höfuðborgarsvæðinu.

Flugslysaæfingar eru almannavarnaæfingar þar sem allir viðbragðsþættir vegna flugslyss eru prófaðir, þar með talið slysarannsókn og úrvinnsla. Líkt var eftir því að stórri farþegaþotu hlekktist á við flugvöllinn. Æfðar voru björgunar- og slökkviaðgerðir, greining og aðhlynning slasaðra auk umönnunar óslasaðra og aðstandenda. Sérstök áhersla var lögð á samhæfingu vegna flutnings á slösuðum, boðunarkerfi, stjórn, samhæfingu, fjarskipti, rannsókn á vettvangi og fleira.

Margar starfseiningar tóku þátt í æfingunni, starfsfólk Isavia á Akureyrarflugvelli, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar, Landhelgisgæslan, starfsfólk fjórðungssjúkrahússins, björgunarsveitir, almannavarnir, Rauði krossinn, prestar, flugfélög og rannsóknaraðilar auk annarra og hefur undirbúningur staðið um nokkurra mánaða skeið.

Flugslysaæfingar af þessu tagi nýtast einnig mjög vel til samhæfingar viðbragða við hvers kyns vá eða hópslysi. Isavia stendur fyrir tveimur til þremur flugslysaæfingum á ári en á hverjum flugvelli er stór flugslysaæfing á fjögurra ára fresti.