Hoppa yfir valmynd
7.5.2018
FLUGSLYSAÆFING Á BÍLDUDALSFLUGVELLI

FLUGSLYSAÆFING Á BÍLDUDALSFLUGVELLI

Um 80 manns tóku þátt í flugslysaæfingu við Bíldudalsflugvöll laugardaginn 5. maí síðastliðinn. Þar voru æfð viðbrögð við flugslysi á eða við flugvöllinn. Miðað var við að flugvél með 20 manns um borð hefði farist. Allir viðbragðsaðilar frá Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði tóku þátt í æfingunni. Aðgerðarstjórn var virkjum á Ísafirði sem og Samhæfingarstöðin almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík.

Á æfingunni reyndi á samvinnu allra viðbragðsaðila á svæðinu, þ.e. lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita, Rauða krossins og heilbrigðisstarfsmanna. Vettvangur á æfingunni var nokkuð krefjandi. Eldur var kveiktur á þremur stöðum og slysstaður var afmarkaður á nokkuð dreifðu svæði. Björgunarsveitum á svæðinu voru afhentar hópslysakerrur frá Isavia og nýttust þær vel á æfingunni.

Við undirbúning æfingarinnar var lögð áhersla á að sem flestir gætu nýtt sér þá fræðslu sem í boði var. Áhersla var lög á skipulag á vettvangi slyss, umönnun og bráðaflokkun slasaðra, aðkomu að flugslysi, slökkvistörf og björgun. Fræðsla á æfingunni var í höndum ráðgjafa frá Isavia, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landsbjörg og slökkviliði.