Hoppa yfir valmynd
30.9.2013
Flugslysaæfing á Ísafirði

Flugslysaæfing á Ísafirði

Frá flugslysaæfingunni á Ísafirði

Flugslysaæfing var haldin á Ísafjarðarflugvelli laugardaginn 28. september þar sem æfð voru viðbrögð samkvæmt flugslysaáætlun flugvallarins. Líkt var eftir brotlendingu flugvélar með 54 farþega rétt fyrir utan flugvöllinn. Fjöldi aðila tók þátt frá Isavia og viðbragðsaðilum á Vestfjörðum. Æfingin tókst mjög vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður að sögn Bjarna Sighvatssonar æfingastjóra. "Æfingin fór fram fremst í Engidal fyrir utan flugvallarsvæðið en slysstaðurinn var við mjóan sveitaveg og því erfitt fyrir björgunarbifreiðar að athafna sig, en það var auðvitað hluti af æfingunni" segir Bjarni. 


Um flugslysaæfingar Isavia

Flugslysaæfingar eru almannavarnaæfingar þar sem farið er yfir alla viðbragðsþætti vegna flugslyss, þar með talið slysarannsókn og úrvinnslu. Æfðar eru björgunar- og slökkviaðgerðir, greining og aðhlynning slasaðra auk umönnunar óslasaðra og aðstandenda. Sérstök áhersla er lögð á samhæfingu viðbragðsaðila.

Margar starfseiningar taka þátt í flugslysaæfingum, starfsfólk Isavia, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar, Landhelgisgæslan, heilbrigðisstarfsfólk, björgunarsveitir, almannavarnir, Rauði krossinn, prestar, flugfélög og rannsóknaraðilar auk annarra og undirbúningur hverrar æfingar stendur jafnan yfir í nokkra mánuði.

Flugslysaæfingar af þessu tagi eru mikilvægar til samhæfingar viðbragða við hvers kyns vá eða hópslysi á landinu. Isavia stendur fyrir tveimur til þremur flugslysaæfingum á ári en á hverjum flugvelli er stór flugslysaæfing á fjögurra ára fresti.