Hoppa yfir valmynd
7.5.2012
Flugslysaæfing á Keflavíkurflugvelli 5. maí 2012

Flugslysaæfing á Keflavíkurflugvelli 5. maí 2012

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Isavia ohf. efndu til umfangsmikillar viðbragðsæfingar samkvæmt flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll laugardaginn 5. maí.
 
Flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á eða við Keflavíkurflugvöll. Æfingin er almannavarnaæfing þar sem allir viðbragðsþættir vegna flugslyss eru prófaðir með reglubundnum hætti, þ.m.t. rannsókn og úrvinnsla. Líkt var eftir flugslysi við lendingu á Keflavíkurflugvelli og æfð samvinna viðbragðsaðila með áherslu á samhæfingu og virkni áætlunarinnar. Æfingin er umfangsmesta viðbragðæfing vegna flugsamgangna sem haldin er í landinu með reglubundnum hætti.
 
Í æfingunni var líkt eftir aðstæðum vegna lendingar farþegaflugvélar á leið vestur um haf sem lýsti yfir hættuástandi vegna ástands um borð þegar flugvélin var stödd í um klukkustundar fjarlægð frá Keflavík. Um borð voru um 40-60 manns og var strax boðað „hættustig gult“ samkvæmt flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar. Allir viðbragðsaðilar á Suðurnesjum eru þá kallaðir út og samhæfingarstöð almannavarna í Reykjavík er mönnuð ásamt aðgerðarstjórnstöð á Keflavíkurflugvelli. Ástand flugvélarinnar fór smátt og smátt versnandi í æfingunni uns hún brotlenti á flugvellinum og eldur kviknaði í flakinu. Við það er samstundis virkjað „neyðarstig“ og brugðust viðbragðsaðilar skjótt við. Eldur var slökktur í „flakinu“, og var m.a. notaður sérstakur nýr og fullkominn þjálfunarbúnaður fyrir slökkvi- og björgunarstörf í flugvélum. Björgunaraðilar tóku til við að bjarga farþegum og áhöfn og koma slösuðum undir læknishendur og flytja á sjúkrahús. Ómeiddir farþegar og aðstandendur fengu viðeigandi aðhlynningu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og rannsóknaraðilar könnuðu orsakir slyssins.   
 
Þátttakendur í æfingunni voru allir viðbragðsaðilar á Suðurnesjum auk viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, flugvallarstarfsmenn, slökkvilið, lögregla, landhelgisgæsla, björgunarsveitir, sjúkrahús, Rauði krossinn, flugrekendur og flugafgreiðsluaðilar, prestar og rannsóknaraðilar ásamt samhæfingarstöð almannavarna auk sjálfboðaliða sem léku flugfarþega og aðstandendur – alls um 360 manns. Undirbúningur æfingarinnar hefur staðið um allangt skeið en svo umfangsmikil æfing var síðast haldin á Keflavíkurflugvelli vorið 2009.

Æfingin tókst vel að flestu leyti en eins og ávallt komu fram einstök atriði í skipulagi eða framkvæmd flugslysaáætlunarinnar sem betur mega fara og leitað er að með slíkum æfingum. Á næstunni verður unnið úr niðurstöðum æfingarinnar og þær birtar í lokaskýrslu að nokkrum vikum liðnum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá æfingunni: