Hoppa yfir valmynd
17.1.2012
Flugstöð Leifs Eiríkssonar valin næstbest í heimi

Flugstöð Leifs Eiríkssonar valin næstbest í heimi

Frétt af mbl.is

Vefurinn frommers.com hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé næstbesta flugstöð í heimi á eftir Hajj-flugstöðinni á flugvelli Abdul Aziz konungs í Jedda í Sádi-Arabíu. Sú flugstöð er aðeins opin meðan á Hajj, trúarhátíð múslima, stendur þegar milljónir múslima fara í pílagrímsferð til Mekka.
 
Bandaríska blaðið USA Today segir frá þessu í dag en frommers.com tók saman lista yfir bestu og verstu flugstöðvar heims fyrir blaðið.
 
Um Leifsstöð segir frommers.com, að litli notalegi alþjóðlegi flugvöllurinn á Íslandi líti út eins og hann hafi komið í flötum innbúðum frá Ikea. „Alls staðar er ljós viður og hraungrýti með stórum gluggum þar sem hægt er að horfa á mikilfenglegt landslag Íslands.“
 
Hinar flugstöðvarnar átta, sem þykja bestar, eru Terminal 5 á John F. Kennedy-flugvelli í New York og flugstöðvarnar í Seúl í Suður-Kóreu, Wellington á Nýja-Sjálandi, Madrid á Spáni, Marrakech í Marokkó, Montevideo í Úrúgvæ og Bilbao á Spáni.
 
„Ef borg leggur rækt við flugstöðina sína segir það gestinum, að það sé hugsað vel um hann,“ hefur USA Today eftir Jason Clampet, ritstjóra frommers.com.
 
Versta flugstöðin að mati vefjarins er á John F. Kennedy-flugvelli, Terminal 3, sem Delta notar. Á þeim lista eru einnig Terminal B á Newark-flugvelli og flugstöð US Airways á LaGuardia-flugvelli í New York, Midway-flugvöllur í Chicago og flugstöðvar í Manila á Filippseyjum, Moskvu í Rússlandi, París í Frakklandi, Nairobi í Kenýa og Amman í Jórdaníu. 
 
Frétt Mbl.is