Hoppa yfir valmynd
19.3.2019
FLUGVALLAREKSTUR Í BREYTTU NEYSLUUMHVERFI Á ACI RÁÐSTEFNU

FLUGVALLAREKSTUR Í BREYTTU NEYSLUUMHVERFI Á ACI RÁÐSTEFNU

„Aðlögun eða dauði“ (e. Adapt or Die) er yfirskrift viðskipta- og verlsunarráðstefnu og sýningar ACI Europe, evrópudeildar alþjóðasamtaka flugvalla, sem haldin er í Hörpu í dag og á morgun. Isavia, sem eru aðilar að ACI, eru gestgjafar á ráðstefnunni.

Ráðstefna þessi er haldin árlega víða um álfuna og er núna boðið til hennar í tuttugasta og áttunda sinn. Um fjögur hundruð fulltrúar taka þátt í viðburðinum. Þar eru mættir til leiks fulltrúar helstu flugvalla í Evrópu og þeirra fyrirtækja sem bjóða vörur og þjónustu á þeim. Helsta umræðuefnið er breytingar í tekjuöflun flugvalla vegna ýmiskonar tækni, þar á meðal breytinga í stafrænni tækni.

Áhersla er á aukið mikilvægi óflugtengdra tekna flugvalla sem víða um heim koma til með að fjármagna uppbyggingu þeirra. Óflugtengdar tekjur eru meðal annar sala á matvöru og varningi, leiga á aðstöðu, bílastæðaþjónusta og fleira. Fulltrúar flugvalla, verslana og þjónustuaðila deila reynslu sinni og ræða þróun rekstrarumhverfisins.

Meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni í morgun eru Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, og Olivier Jankovec, framkvæmdastjóri ACI Europe. Næstu daga verða fyrirlesarar og þátttakendur í pallborðsumræðum meðal annars Per Rune Lunderby, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Avinor Group í Noregi, Jukka Isomaki, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Finavia í Finnlandi og fleiri sérfræðingar í markaðsmálum og ráðgjöf.

Í ræðu sinni við upphaf ráðstefnunnar í morgun lagði Björn Óli áherslu á mikilvægi óflugtengdra tekna í uppbyggingu flugvalla til framtíðar. Einni vék hann að því hversu mjög hefði orðið breyting á áherslum farþega og óskum þeirra um þjónustu og verslun á flugvöllum. Tæknin væri mikilvægur þáttur í þjónustunni í dag og flugvellir yrðu að þróast í samræmi við það.

Ferðamálaráðherra vék í máli sínu að hlutverki Keflavíkurflugvallar í að koma Íslandi á kortið sem áfangastað fyrir erlenda ferðamenn og sagði hún flugvöllinn hafa verið í þýðingarmiklu hlutverki í þeim efnum.

Olivier Jankovec, framkvæmdastjóri ACI Europe, sagði eina helstu áskorun flugvallarrekenda að takast á við mikinn vöxt í afar breyttu viðskipta- og neysluumhverfi. Þrýstingur væri mikill á flugtengdar tekjur nú á tímum endurgreiðslna, hvatakerfa og markaðsstuðnings. Mikil samkeppni væri milli flugvalla um flugfélög til að tryggja undirstöður fyrir uppbyggingu á flugvöllunum. Mikil þörf væri því á að auka óflugtengda tekjuöflun.