Hoppa yfir valmynd
11.6.2014
Fögnuðu frábærum árangri Keflavíkurflugvallar

Fögnuðu frábærum árangri Keflavíkurflugvallar

Starfsmenn í flugstöð Leifs Eiríkssonar fögnuðu í dag útnefningu Keflavíkurflugvallar í röð bestu flugvalla heims en Alþjóðasamtök flugvalla – Airports Council International (ACI) völdu flugvöllinn nýlega á heiðurslista samtakanna – ACI Director General’s Roll of Excellence. Útnefningin nær til flugvalla sem óslitið hafa sýnt frábæran árangur í þjónustukönnunum meðal flugfarþega frá árinu 2008.

Auk Keflavikurflugvallar bættust Dubaiflugvöllur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kairóflugvöllur í Egyptalandi, Hyderabad Rajiv Gandhiflugvöllur á Indlandi, Taoyuanflugvöllur á Taiwan og Sangsterflugvöllur á Jamaíku á heiðurslista samtakanna en alls hafa 21 flugvellir hlotið slíka viðurkenningu frá árinu 2011.

Starfsmenn Isavia og annarra rekstraraðila í flugstöðinni héldu upp á daginn með hátíðartertu við undirleik Guitar Islancio. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia þakkaði starfsfólki og samstarfsaðilum Keflavíkurflugvallar fyrir frábæran árangur. „Flugfarþegar leggja sífellt aukna áherslu á þægindi og góða þjónustu og skilningur á mikilvægi þess að ganga skrefi framar í að uppfylla væntingar skiptir sköpum í árangursríku starfi. Þessi frammistaða er ekki bara að mælast nú eða í fyrra. Hún hefur verið viðvarandi hjá okkur í mörg undanfarin ár.“

Starfsmenn á Keflavíkurflugvelli fagna frábærum árangri í þjónustu við flugfarþega.