Hoppa yfir valmynd
24.2.2020
Forstjóri Isavia fundaði með forstjóra TSA

Forstjóri Isavia fundaði með forstjóra TSA

Miðvikudaginn 19. febrúar síðastliðinn átti Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, fund með þeim David P. Pekoske, forstjóra TSA – Samgöngustofnunar Bandaríkjanna, og Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Á fundinum var rætt um sameiginleg hagsmunamál Bandaríkjanna og Íslands þegar kemur að flugvallarekstri og flugsamgöngum. Einnig var rætt um mikilvægi áframhaldandi samstarfs og hvers konar möguleika í þeim efnum.

„Þetta var ánægjulegur fundur þar sem við gátum skipts á skoðunum um helstu mál og farið yfir hversu vel hefði gengið í samstarfi TSA og Isavia,“ sagði Sveinbjörn eftir fundinn. „Það var einkar ánægjulegt að finna, að þó svo að öryggið sé alltaf í fyrsta sæti og að mikil tækifæri til öflugs samstarfs í öryggismálum séu til staðar, þá horfir TSA einnig mjög til þess að fullnýta viðskiptatækifærin milli Íslands og Bandaríkjanna og hvernig hægt sé að styðja þar við til framtíðar.“

David P. Pekoske, yfirmaður TSA, var hér í opinberri heimsókn og ásamt fundinum með forstjóra Isavia þá fundaði hann einnig með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og útflutningsgreinum og fulltrúum utanríkis- og samgönguráðuneyta Íslands.